(Ixodes ricinus)

Tilfellum fer fjölgandi hér á landi þar sem blóðmítlar (Ticks) finnast á dýrum, m.a. mönnum. Blóðmítlar eru litlir hryggleysingjar, náskyldir köngulóm og öðrum mítlum. Lífsferli þeirra skiptist í þrennt, lirfa, ungviði og fullorðið dýr. Á hverju stigi lífsferils síns, þarfnast þeir blóðs. Eftir því sem þeir þroskast, stækkar blóðgjafinn. Lirfan lifir einkum á smáum dýrum svo sem fuglum og músum, en finnast einnig á stærri dýrum eins og hundum og köttum. Fullorðnir blóðmítlar lifa aftur á móti eingöngu á stórum spendýrum, sem hérlendis eru t.d. hundar, kettir, sauðfé, nautgripir og hestar. Á flestum stöðum spannar lífsferill blóðmítla 2-3 ár en það fer nokkuð eftir loftslagi og hversu mikla fæðu þeir ná í.

Erlendis þrífast blóðmítlar best á svölum og frekar rökum stöðum. Þá má finna í ýmis konar grónum svæðum oft þar sem gróður er hár til að mynda í melgresi og á grónum árbökkum, runnavöxnum ökrum og í skógum.

Í Danmörku og Noregi eru mítlar þessir kenndir við skóga, og heita þá Skogflått (norska) eða Skovflåt (danska). Er það líklega tilkomið vegna þess að í skógum Skandinavíu finnast stór spendýr, líkt og hjartardýr og elgir, sem þjóna sem blóðgjafi fyrir fullorðnu blóðmítlana. Í enskumælandi löndum eru þeir hins vegar kenndir við sauðfé eða sheep tick. Þar sem lítið er af stórum spendýrum í íslenskum skógum ættu að vera minna um blóðmítla þar heldur í skógum erlendis. Því má velta því fyrir sér hvort nafnið skógarmítill sé ekki rangnefni hérlendis.

Hvers vegna eigum við að hafa áhyggjur af blóðmítlum?

Blóðmítlar geta borið með sér ýmsa sjúkdóma. Sá alvarlegasti er af völdum bakteríu af ættkvíslinni Borrelia. Bakterían veldur Lyme-sjúkdómi (Lyme-disease). Einkenni sjúkdómsins eru hiti, höfuðverkur, þreyta og jafnvel þunglyndi, auk einkennandi hringlaga útbroti á húð. Ef ekkert er að gert getur sjúkdómurinn haft áhrif á liði, hjarta og taugakerfi. Í langflestum tilfellum er hægt að vinna bug á sjúkdómnum með sýklalyfjum.

Fjórar staðreyndir um blóðmítla

1.      Bakterían er ekki í öllum blóðmítlum. Til að vera smitberi, verður blóðmítillinn fyrst að hafa nærst á blóði sýkts dýrs.

2.      Blóðmítlar nærast aðeins einu sinni á hverju lífsstigi og því getur hver mítill ekki sýkt fleiri en eina manneskju. Sjúkdómurinn berst ekki manna á milli.

3.      Það tekur meira en 24 tíma fyrir bakteríuna að berast úr mítli í hýsil. Því er mikilvægt að leita strax læknis ef grunur leikur á því að mítill hafi bitið einstakling.

4.      Blóðmítlar geta borist inn á heimili með öðrum spendýrum. Því er mikilvægt að athuga reglulega hvort hundar og/eða kettir heimilisins séu mítlalausir.

frett_09112009_blodmitillHvernig á að fjarlægja blóðmítil?

1.      Grípið með fínni töng (flísatöng) um mítilinn, eins nálægt skinni og hægt er.

2.      Togið mítillinn varlega upp, ÁN ÞESS AÐ SNÚA UPP Á.

3.      Hreinsið með sýklaeyðandi lausn.

 


Frekari upplýsingar um blóðmítla, Borrelia ættkvíslina og Lyme-sjúkdóminn.Texti: Edda S. Oddsdóttir og Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingar á Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá.

Ljósmynd: Wikimedia