Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, greindi frá vegvísi norrænu ráðherranefndar…
Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, greindi frá vegvísi norrænu ráðherranefndarinnar um skógarmál sem samþykktur var í júní 2016.

Þemadagur NordGen Forest í Växjö í Svíþjóð

Gera þarf frekari rannsóknir á því sam­­spili sem ræður fram­leiðni bland­­aðra skóga. Þetta var með­al álykt­­ana sem dregn­­ar voru á ár­­leg­­ri þema­­­ráð­stefnu NordGen Forest sem hald­­in var í Växjö í Sví­þjóð 20.-21. sept­em­ber.

Yfir­skrift ráðstefnunnar var „Growing Mixed Forests - waste or value for the future?“. Í yfirskriftinni er spurt hvort það sé sóun eða tækifæri til framtíðar að rækta blandaða skóga. Fyrri daginn var þemadagur að vanda og bland­skóg­rækt­in rædd frá ýmsum hliðum. Ljóst þykir að skógar með fleiri en einni trjátegund geti þjónað fjölbreytilegra hlutverki en skógar þar sem aðeins ein tegund er ræktuð.

Skógvísindafólk og skógræktendur beina nú sjónum sínum í vaxandi mæli að blönduðum skógum. Hans Pretzsch, skógfræðiprófessor við tækniháskólann í München, var meðal frummælenda á þemadeginum. Hann hefur rannsakað mismunandi blöndur helstu trjátegunda sem vaxa í skógum meginlands Evrópu. Rannsóknir hans sýna að bland­skóg­ar geta gefið meiri samanlagðan lífmassa en einhæfir skógar. Enn fremur hefur verið sýnt fram á að blöndun getur aukið gæði skógarreits með betri þéttleika, stærðardreifingu og samfelldari krónuþekju.


Lífið ekki eins einfalt og áður var

Marie Larsson-Stern setti þemadag Nord­Gen Forest 2016 og sló tóninn með orðunum „Life used to be so simple“, Lífið var svo einfalt hérna áður fyrr. Þar vísaði hún til þess að nú væru breyttir tímar með umræðunni um loftslags­málin, líffjölbreytni, kolefnis­bindingu, vistkerfisþjónustu og sívax­andi þörf fyrir auðlindir. Þar með hefðu hugmyndir fólks um skóga og skógar­nytjar breyst og orðið flóknara að ákveða hvernig fara skyldi með skógana. Bland­skógar gætu verið svar við þessu að einhverju leyti.

Fyrstur frummælenda var Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, sem leit á blandskógana frá sjónar­hóli stjórnmálanna. Ráðherrar skógarmála á Norðurlöndunum hafa nú treyst samstarf þjóðanna í skógræktar­málum með sérstökum vegvísi um skógrækt. Vegvísir þessi kallast Nordic Forest Solutions og var unninn í for­mennsku­tíð Íslendinga í norræna ráðherraráðinu. Hann var samþykktur á fundi ráðherranna í júní og kemur út á prenti á næstu dögum. Aðalsteinn bendir á að sá margvíslegi hagur sem við höfum af skóg­un­um sé að miklu leyti því að þakka að hirt er um skógana og nýtingu þeirra stjórnað. Skógarvegir sem lagðir eru til að hægt sé að nytja skóg­inn nýtast til dæmis líka fólki til útivistar og það er nytjaskógræktinni að þakka hversu fjölbreytt blanda mismunandi skógargerða norrænu skógarnir eru. Ef viður væri einskis virði væri ekki víst að eins mikið væri um skóga á Norður­löndunum og nú er raunin. Þá væri víðar umhorfs eins og hér á Íslandi, nakið land.


Skaðvaldar og líffjölbreytni

Ýmsir áhugaverðir fyrirlestrar fylgdu í kjöl­farið á þemadeginum, allt frá sögu­legri umfjöllun um þróun skóga og land­notkunar á Norðurlöndunum í 5.000 ár, áhættugreiningu og skógræktar­skipu­lagi í ljósi loftslagsbreytinga yfir í  lauf­trjáa­rækt í Finnlandi. Þá var líka horft yfir markaðinn fyrir vörur úr skógarafurðum frá sjónarhóli IKEA-húsgagna­ris­ans.

Iben M. Thomsen frá Kaupmanna­hafnar­há­skóla ræddi um kosti og ókosti blandaðra skógarreita með tilliti til skað­valda. Mikilvægt væri að hafa þessa áhættu í huga við áætlanagerð og skipu­lagningu blandskóga. Þetta væri ekki eingöngu spurning um blöndun heldur hvernig væri blandað.

Íslensku skógarnir eru að mestu blandskógar og nýtast því vel til útivistar jafnframt því að vera gjöfulir nytjaskógar. Hreinn Óskarsson í ræðustóli í Växjö.">

Segja má að erindi þeirra Hreins Óskars­sonar, sviðstjóra samhæfingar­sviðs Skógræktarinnar, og Adams Fel­tons, skógarvistfræðings hjá sænska landbúnaðarháskólanum SLU, hafi dregið saman ýmis aðalatriði í lok þemadagsins. Hreinn fjallaði um útivist og ferðamál í íslensku skógunum sem eru að langmestu leyti blandskógar.

Felton taldi vera félagsvísindalegar skýr­ingar á því hvers vegna svo lítið væri um blandskóga annars staðar á Norður­lönd­unum. Jafn­vel þótt blandskógarækt rímaði í raun vel við skógræktarmarkmið margra landeigenda litu þeir ekki á hana sem val­kost, ef til vill vegna þess að ráðgjafar þeirra mæltu ekki með slíkri skógrækt við þá. Hann taldi semsé að orsakanna væri meðal annars að leita í hefðinni, samræðunni og upplýsingagjöfinni.

Hans Pretzsch með hljóðnemann í pallborðsumræðum í lok þemadagsins.

Hversu mikil blöndun?

Allir frummælendur á þemadeginum tóku þátt í pallborðsumræðu í lokin og voru spurðir að því hversu mikillar blönd­un­ar væri þörf á komandi árum. Svörin voru allt frá því að blöndunin ætti að vera tíu prósent upp í að blanda ætti eins mikið og mögulegt væri. Hans Pretzsch benti á að ákvarðanir í þessum efnum yrðu að vera á höndum skógar­eigenda og samfélagsins. Megin­niður­staða umræðunnar var líklega sú sem hér var vikið að í upphafi, að betri þekk­ingar væri þörf, rannsaka þyrfti frekar kosti þess og galla að blanda saman tegundum í skógrækt og þróa aðferðir.

Síðari dag ráðstefnunnar var farið í skoðunarferð og skoðaðir tilraunareitir með blönduðum trjátegundum bæði við Asa-rannsóknarstöðina og skógarbýlið Tagels Gård. Þá var fyrirtækið Södra Skogsägarna einnig með kynningu á starfsemi sinni þar sem velt var upp sjónarmiðum um blandskóga frá sjónarhorni skógarnytja.

Þemaráðstefna NordGen, „Growing Mixed Forests - waste or value for the future?“ fór fram í Växjö í Smá­lönd­um í Svíþjóð 20.-21. september 2016. Þátt í henni tóku 75 manns frá öllum norrænu ríkjunum auk Lettlands. Fundarstjórar voru Urban Nilsson frá SLU og Kjersti Bakkebø Fjellstad, sérfræðingur hjá NordGen Forest.

Degli er ein þeirra tegunda sem reynst hafa mjög vel í Svíþjóð. Tegundin er þó mjög
viðkvæm fyrir frosti sem ungplanta og því gæti hentað mjög vel að rækta hana
undir laufþaki annarra tegunda, til dæmis hengibjarkar.


Blandskógur með rauðgreni og 10% hengibjörk á skógarbýlinu Tagels Gård.
Þar eru gerðar tilraunir með mismikla blöndun hengibjarkar við rauðgreni.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson