Blágreni í eyfirskum skógi. Rauðgreni fjær. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Blágreni í eyfirskum skógi. Rauðgreni fjær. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

(Picea engelmannii)

Blágreni á uppruna sinn í vestanverðri Norður-Ameríku og er helst að finna í hlíðum hárra fjalla. Blágreni telst ekki meðal stórvöxnustu grenitegunda en er stórt engu að síður og nær örugglega 25 metra hæð hérlendis. Þetta er snoturt tré og þótt það sé heldur hægvaxta fyrir timburframleiðslu og þyki oft helst til krónumjótt sem jólatré er það gott garðtré sem getur verið til mikillar prýði í görðum, á almenningssvæðum í þéttbýli og innan um aðrar tegundir í skógum.

Hvers vegna ber blágreni þetta sérkennilega heiti á latínu, engelmannii? Sannarlega lýsir það á engan hátt einkennum eða eðli blágrenis enda tilkomið í allt öðrum tilgangi. Þannig var, að Charles Christopher Parry, ensk-amerískur læknir og grasafræðingur, vildi heiðra vin sinn, þýsk-ameríska lækninn og grasafræðinginn George Engelmann, fyrir glæst ævistarf á sviði grasafræðinnar. Frægastur varð Engelmann þessi fyrir að bjarga franskri vínrækt. Lúsarlegt smákvikindi, Phylloxera vastatrix, herjaði á vínviðinn í Frakklandi upp úr miðri nítjándu öld. Uppskera vínbændanna minnkaði ört og við blasti hrun í þessari undirstöðugrein franskrar menningar. Þá kom George Engelmann til bjargar. Enginn var betur að sér en Engelmann um amerískan vínvið og hann gat staðfest að ýmsir stofnar vínviðar vestanhafs byggju yfir mótstöðuafli gegn skaðvaldinum. Með miklum samtakamætti þar sem Engelmann var í fylkingarbrjósti tókst að senda Frökkum milljónir fræja og stiklinga af slíkum efniviði. Í minningarorðum um vin sinn látinn lýsti Parry þeirri von að meðan nokkur maður fengist við athuganir á trjám gæti blágrenið, fegurst grenitrjáa, áfram prýtt göfuga skóga hátt til fjalla, verðugur minnisvarði um hina miklu, tæru og frjósömu starfsævi Engelmanns.

Blái liturinn einkennandi

Hálfþroskaðir könglar á blágreni. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÞar með er kannski að nokkru leyti búið að lýsa tegundinni sem hér er rætt um, blátærri og stórvaxinni. Blágreni á uppruna sinn í vestanverðri Norður-Ameríku og er helst að finna í hlíðum hárra fjalla. Blágreni telst ekki meðal stórvöxnustu grenitegunda en er stórt engu að síður og nær örugglega 25 metra hæð hérlendis. Í upprunalegum heimkynnum sínum nær það oft 40 metra hæð og í einstaka tilfellum jafnvel yfir sextíu metrum. Eins og önnur grenitré er eðli blágrenis að vaxa upp sem einstofna, beinvaxið tré. Einkennandi fyrir er jafnan fremur mjó, keilulaga króna og ekki síður blái liturinn, sem er mest áberandi á ungum sprotum fyrri hluta sumars

Kröfuhart eins og allt greni

Vaxtarhraði blágrenis er fremur hægur sem gerir að verkum að trén verða þétt og falleg en þar með henta þau líka síður til skógræktar ef markmiðið er mikill vöxtur og viðarmassi. Þeim mun betur hentar það aftur á móti í görðum og til skrauts í skógum. Vel er hægt að rækta blágreni víða um Ísland en þó síst í lágsveitum á Suður- og Vesturlandi. Það er líkt og annað greni fremur kröfuhart og vill frjósama mold þannig að rýrir lyngmóar henta því ekki. Styrkleikar þess eru sæmilegt frostþol, formfegurðin og bláa barrið. Það hentar vel sem jólatré en þótt því haldist betur á barrinu en rauðgreni þarf að gæta vel að vökvun heima í stofu á jólunum. Vaxtarsvæði blágrenis og hvítgrenis skarast í fjöllum Norður-Ameríku og þar verða til blendingar sem eru þeirrar furðulegu náttúru að gefa frá sér vonda lykt sem sumum finnst minna á kattarhland. Ekki er að furða að slíkt fæli fólk frá blágreni sem slysast hefur á slíkan blending og sett upp í stofunni hjá sér.

Blágreni er snoturt tré og þótt það sé heldur hægvaxta fyrir timburframleiðslu og þyki oft helst til krónumjótt sem jólatré er það gott garðtré sem getur verið til mikillar prýði í görðum, á almenningssvæðum í þéttbýli og innan um aðrar tegundir í skógum.

Texti: Pétur Halldórsson