Helsta tákn baráttunnar gegn skógareldum í Bandaríkjunum

Um þessar mundir er því fagnað að sjötíu ár eru liðin frá því að farið var að beita birninum Smokey í baráttunni við skógarelda. Nú orðið berst Smokey gegn öllum gróðureldum. Tvö ný myndbönd hafa verið gerð í tilefni afmælisins. Íslendingar þurfa líka að huga að þessari hættu.

Upphaf Smokeys má rekja til áróðursherferðar sem efnt var til árið 1944 með slagorðunum „Smokey Says – Care Will Prevent 9 out of 10 Forest Fires“ eða Smokey segir að með varúð megi koma í veg fyrir 9 af hverjum 10 skógareldum. Björninn varð strax áberandi og þekkt tákn um baráttuna gegn skógareldum og kjörorðin styttust í hnitmiðaðri útgáfu, „Remember ... Only YOU Can Prevent Forest Fires“, munið, aðeins þið getið komið í veg fyrir skógarelda. Slagorðin vísa til þess sem talið er, að flestir skógareldar kvikni af mannavöldum, óviljandi, fyrir slysni og stundum jafnvel viljandi.

Enn í dag er Smokey mjög þekktur vestra og samkvæmt könnunum auglýsingastofnunarinnar Ad Council, sem sér um kynningarmál í almannaþágu, þekkja 97% fullorðinna Bandaríkjamanna björninn Smokey og boðskap hans og 77% barna. Þrír af fjórum fullorðnum þar í landi geta umhugsunarlaust þulið algengasta slagorð bjarnarins ef þeir eru beðnir um það.

Smokey hefur blíðkast með árunum eins og gjarnan gerist hjá mörgum þegar aldurinn færist yfir. Áður fyrr rak hann upp ógurleg öskur en nú er hann farinn að faðma fólk og þakka fyrir það sem vel er gert. Hann fer varlega að öllum eldi eins og vera ber og umbunar þeim með sínu mjúka og hlýja faðmlagi sem sýna í verki að þeir vilji koma í veg fyrir skógarelda. Þetta sést í tveimur nýjum myndböndum sem gerð hafa verið í tilefni afmælisins.

Annað myndbandið sýnir fólk sem komið er í skóginn með afmælistertu til að færa Smokey. Hugmyndina að myndbandinu eiga nemendur við Brigham Young háskólann í Utah. Á afmælistertunni eru að sjálfsögðu 70 logandi kerti en Smokey bregst ekki við eins og gestirnir höfðu búist við. Eldur er eldur. Allt fer þó vel að lokum. Myndbandið má sjá hér.

Í hinu myndbandinu er vakin athygli á því að af litlum neista verður oft mikið bál. Neistar geta borist frá ökutækjum sem fara um vegi í skógum, til dæmis ef málmhlutir rekast í malbikið. Öryggiskeðjur á dráttarvögnum aftan í bílum geta dregist eftir jörðinni og myndað neista. Að þessu hugar Smokey eins og við sjáum í þessu myndbandi hér.

Skógareldar eru ekkert grín, jafnvel þótt þeir séu sums staðar eðlilegur hluti af gangi náttúrunnar í skóglendi. Þúsundir Bandaríkjamanna hafa misst heimili sín í skógareldum undanfarin ár. Tjónið nemur milljörðum króna á hverju ári og árlega eyðist í eldi skógur á 10-40 þúsund ferkílómetrum í Bandaríkjunum einum. Skaðinn er mjög mismikill frá einu ári til annars og fer eftir veðurfari. Vandinn vex víða með hlýnandi loftslagi því þá eru meiri líkur á þurrkatíð sem eykur hættuna á að eldur kvikni og breiðist út. Fjárhagslegt tjón hlýst ekki einungis af sjálfum eldinum heldur hafa húseigendur víða þurft að leggja út mikið fé til fyrirbyggjandi aðgerða á og við hús sín.

Íslendingar hafa að mestu sloppið við skógarelda hingað til sem betur fer enda þurfa aðstæður að vera mjög sérstakar og mikill hiti til að skógar hér brenni. Enn hefur ekki orðið krónueldur í skógi á Íslandi. Hins vegar kveikja Íslendingar enn þá í sinu annað veifið þótt ávinningur af því sé efanum undirorpinn. Stundum er þetta gert af fikti og getur líka gerst af slysni. Margir minnast eldanna miklu á Mýrum vorið 2006 þegar 67 ferkílómetrar lands brunnu. Enginn skógur var á svæðinu en lyng og smákjarr sem hvarf og í staðinn kom einhæfara graslendi. Litlu munaði að hús yrðu eldinum að bráð. Mýraeldarnir eru taldir hafa kviknað út frá sígarettuglóð. Sinueldar gætu valdið miklu tjóni á trjágróðri, sérstaklega á ungum trjám.

Oft hefur komið fyrir að óvarlega hafi verið farið með eld í íslenskum skógum. Nú fyrir fáeinum dögum réðu gestir í Kjarnaskógi á Akureyri ekki við eld sem þeir höfðu kveikt eins og sagt var frá í fréttum Ríkisútvarpsins. Varðeldur hafði verið kveiktur í óleyfi og farið úr böndunum og þurfti slökkvilið til að slökkva eldinn. Ekki virðist skógurinn þó hafa verið í hættu en allur er varinn góður. Árið 2008 varð tilfinnanlegt tjón á ungum skógi á ræktunarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar við Hvaleyrarvatn vegna sinuelda sem ítrekað voru kveiktir svo dæmi séu tekin. Öll meðferð elds er að jafnaði bönnuð í íslenskum skógum.

Sérstakur stýrihópur um brunavarnir í skógrækt var settur saman árið 2013 og er enn að störfum. Haldið var málþing um efnið 4. júní 2013. Vinnuhópurinn á að vinna að forvörnum, varnaráætlunum og viðbragðsáætlunum í brunavörnum í skógrækt. Fjallað var um starf hópsins á Fagráðstefnu skógræktar á Selfossi í mars 2014 og má sjá glærur frá fyrirlestri Björns B. Jónssonar og Böðvars Guðmundssonar með því að smella hér.

Á vefsíðu Eldvarnamiðstöðvarinnar má sjá ýmsan búnað til að beita gegn gróðureldum. Þar er til dæmis mælt með því að sumarbústaðaeigendur komi fyrir svokölluðum sinuklöppum á norðurgafli húsa sinna sem hver sem er getur gripið til ef eldur kemur upp í nágrenninu. Sumarbústaðir eru gjarnan í skóglendi.

Ef fólk vill fræðast nánar um björninn góða, Smokey Bear, er upplagt að skoða vefsíðu hans, www.SmokeyBear.com.