Skógvísindafólk í skoðunarferð um finnskan skóg í júní 2016. Mynd: Pétur Halldórsson
Skógvísindafólk í skoðunarferð um finnskan skóg í júní 2016. Mynd: Pétur Halldórsson

Íslendingar geta margt lært af nágrannaþjóðum sínum

Finnar hafa á undanförnum árum gert breytingar á stefnu, lagaumhvefi og stofnunum í finnska skógargeiranum. Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingar­sviðs Skógræktarinnar, sat í vikunni fund í Finnlandi þar sem starfsfólk úr finnska landbúnaðar- og skógræktarráðuneytinu kynnti helstu breytingar sem gerðar hafa verið. Á fundinum voru einnig fulltrúar ráðuneyta frá Noregi, Danmörku og Svíþjóð.

Skógar eru Finnum afar mikilvægir og á afar víðtækan hátt, bæði hvað varðar náttúruvernd, atvinnulíf, kolefnisbindingu og lífhagkerfið, s.s. kyndingu. Eru viðarafurðir stærsta einstaka útflutningsvara Finna, 20% alls útflutnings. Finnland hefur, eins og önnur ríki Norðurlandanna, unnið að því að auka flatarmál skóga á síðustu 100 árum en skógareyðing vegna landbúnaðar var töluverð í sunnanverðu Finnlandi á nítjándu og tuttugustu öldinni. Nú er Finnland skógríkasta land í Evrópu með 76% skógarþekju. Árlegt magn viðar sem höggvið er úr finnskum skógum er um 48-68 milljónir m3. Þar af eru 9 milljónir rúmmetra nýttar til kyndingar. Flestir skóganna eru í einkaeigu og eru skógareigendur taldir vera um 685 þúsund talsins. Um fjórðungur er í eigu finnska ríkisins. Um 65 þúsund manns starfa beint við skógrækt og eru flest störfin nú orðið unnin með vélum.


Stefnubreytingar

Breytingar hafa orðið á umhverfi skóg­rækt­ar á síðustu áratugum og talin var ástæða til að auka hagkvæmni og koma í veg fyrir stöðnun í skógariðnaðinum. Því var ákveðið að ráðast í breytingar á stofnunum, stefnu og lagaumhverfi. Niðurstaða stefnu­breyt­inga er að stefna að sjálfbærri nýtingu skóga, hvetja til fjárfestinga innlendra og erlendra í skógariðnaði, auka nýsköpun og fjölga afurðum úr timbri og endur­skipu­leggja skógræktarstofnanir.

Lagabreytingar

Lagaumhverfi í tengslum við skógrækt í Finnlandi er heldur flóknara en í öðrum Norðurlöndum. Helstu lög sem vert er að nefna og voru endurskoðuð á árunum 2011-2016 eru sjálf skógræktarlögin sem innihalda hið almenna regluverk í kring um skógrækt og skógariðnað. Einnig hafa finnar sérlög um skóg­ræktar­félög (verktakafélög er þjónusta skógareigendur),lög um fjárfestingar í sjálfbærri skógrækt, lög um skaðvalda í skóg­rækt og hvernig á að draga úr hættu á útbreiðslu þeirra, lög um timburmælingar og lög um timbursölu / timbur­markaðinn. Auk þess að nútímavæða og einfalda lagabálkana hafa lögin verið aðlöguð regluverki Evrópu­sam­bands­ins, sem Finnar eru aðilar að.

Breytingar á stofnunum

Þrjár meginstofnanir finnsku skógræktarinnar eru nú:

Metsähallitus - finnska skógstjórnin
Við finnsku ríkisskógræktina Metsähallitus, sem þýða mætti beint „skógstjórnin“, starfa um 1.400 manns við skógstjórn og 500 manns í þjóðgörðum. Stofnunin hefur starfstöðvar um allt Finnland.


Luke - rannsóknarstofnun Finnlands í náttúrufræðum
Rannsóknarstofnun Finnlands í náttúrufræðum, Luke, varð til við sameiningu þriggja rannsóknarstofnana: skógræktarrannsóknastöðvarinnar METLA, MTT Agrifood eða matvælastofununar Finnlands og The Finnish Game and Fisheries Research Institute (veiðimálastofnun Finnlands). Í nýju stofnuninni starfa um 1700 manns og dreifist hún um allt Finnland.

Metsäkeskus - skógarmiðstöð Finnlands
Í skógarmiðstöð Finnlands, Metsäkeskus (Forestry Centre of Finland) vinna 800 manns í 80 starfstöðvum vítt og breitt um landið. Þetta er sjálfstæð stofnun (eins konar ohf.?) sem þó er stjórnað af ráðuneyti skógarmála og starfar eftir lögum. Stofnunin heldur utan um leyfisveitingar vegna skógarfellingar, styður við skógariðnað og nýsköpun, sér um styrkveitingar til skógareigenda, menntamál og ráðgjöf til skógareigenda. 1. janúar 2017 breytist stofnunin því þá verður einungis eftir sá hluti starfseminnar er snýr að almannaþjónustu. Sá hluti stofnunarinnar er snýr að viðskiptalífinu og fyrirtækjaþjónustu verður einkavæddur.

Bjart fram undan

Þessar breytingar í Finnlandi hafa ásamt nútímavæðingu finnska skógargeirans þegar skilað aukinni erlendri fjár­festingu í timburiðnaðinum og líta Finnar framtíð skógariðnaðarins björtum augum. Þótt skógar Finnlands séu margfalt stærri en hér á Íslandi og umsýsla í kringum finnska skógrækt sömuleiðis má læra margt af Finnum og öðrum nágrannaþjóðum sem hafa aukið flatarmál skóglendis markvisst á síðustu áratugum og árhundruðum og skapað grunn að sjálfbærum timburiðnaði. Þetta geta Íslendingar einnig gert enda skilyrði til skógræktar hér á landi ekki síðri en í nágrannalöndunum.


Texti: Hreinn Óskarsson