Þann 8. ágúst s.l. bauð Morten Leth skógræktarráðunautur á Suðurlandi til vínsmökkunar á Hallormsstað og mættu hátt í 30 einstaklingar. Um var að ræða vín sem hann hafði bruggað úr birkisafa sem safnað var í vor í Haukadal „Chateau Haukadalur 2008”. Með víninu var boðið upp á ljúfengir smárétti frá Skriðuklaustri og naut fólkið þess að smakka þá ekki síður en vínið. Fjórar meginuppskriftir voru á boðstólnum og fengu þær eftirfarandi dóma:

Chateau Haukadalur „sitron” var með ferskt sítrónunef og hressandi sítrónufyllingu án þess að vera súrt. Eftirbragð af sítrónu. Gott með fiskréttum og sem svaladrykkur á heitum sumardögum.

Chateau Haukadalur „plein” var með hreint og beint nef, hvorki bogið né breitt, milda en hressa fyllingu og eftirbragð af genever frá unglingsárunum. 

Chateau Haukadalur „extra sykur” var með sætt og krúttlegt nef, undurfríða fyllingu sem var alls ekki of sæt og nánast ekkert eftirbragð.

Chateau Haukadalur „kokkað”, bruggað úr birkisafa sem soðinn hafði verið niður til að magna birkisafabragðið var með kengbogið nef og sterkt bragð ólíkt öllu öðru sem maður hefur nokkru sinni áður smakkað og því ólýsanlegt. Ekki beinlínis vont en ekki heldur eitthvað sem maður myndi sækjast eftir að smakka aftur. Eftirkeimur af föllnu laufi.

Í heildina má segja að þessi tilraun með að brugga vín úr birkisafa hafi tekist frábærlega vel. Skógrækt ríkisins áfrormar þó ekki að fara út í vínframleiðslu, heldur var markmiðið einungis að minna á að þessi framleiðsla væri möguleg og það tókst.