Í upphafi nýliðins árs gerðu Hraunverksmiðjan og Hekluskógar með sér samning um að Hekluskógar fengju eitt tré fyrir hvern seldan hraungrip frá Hraunverksmiðjunni. Skömmu síðar hófst eldgos sem hafði áhrif víða um heim.

Iceland Travel ferðaskrifstofan var fljót að kveikja á perunni og ákvað að nota hraun úr eldgosinu til landkynningar og vegna samvinnu þessara og fleiri aðila, og með aðstoð sumarstarfsmanna Landsvirkjunar, hafa verið gróðursett nokkur þúsund birkitré við Hald sem er norðan Heklu, í nágrenni Hrauneyja

Af þessu tilefni varð til nýr minjagripur hjá Hraunverksmiðjunni sem heitir ONE LAVA - ONE TREE - ONE WORLD . Í handmálaðri öskjunni er hraunmoli úr Eyjafjallajökli og textablað þar sem útskýrt er samband eldvirkninnar og upphafs lífs á jörðinni á annari hlið, en á hinni eru útskýrð markmið Hekluskógaverkefnisins með skírskotun til Ara Fróða og Íslendingabókar. Hverri öskju fylgir eitt birkitré gróðursett og áborið.

Eins og aðrar vörur Hraunverksmiðjunnar þá er þessi gripur kjörinn til sérmerkinga fyrir fyrirtæki, ráðstefnur eða fundi og alla þá aðila sem áhuga hafa á að kynna Ísland á erlendri grundu. Athyglisvert er að skoða hraunið úr þessu síðasta eldgosi. Í því leynast glerlíkar agnir í ýmsum litum allt frá glæru og út í svart jafnvel gyllt. Það er gerólíkt Hekluhraunum sem hingað til hafa verið aðal hráefni Hraunverksmiðjunnar.

Hraunverksmiðjan er vinnustofa hraunlistamannsins Snorra Guðmundssonar og hefur verið starfrækt síðan Hekla gaus árið 1991. Allar vörur Hraunverksmiðjunnar eru hugsaðar sem einskonar náttúruverndaráminningar og eiga að auka virðingu okkar fyrir náttúrunni.


Frétt og mynd: Vefsíða Hekluskóga