Hér hellir Benjamín safanum úr söfnunarfötunni yfir í tunnu
Hér hellir Benjamín safanum úr söfnunarfötunni yfir í tunnu

Fylgst með safatöku í Vaglaskógi

Birkið í Vaglaskógi er farið að bruma og þá er kominn rétti tíminn til að tappa hinum meinholla birkisafa af trjánum. Settur hefur verið aftöppunarbúnaður á 41 tré í skóginum og gefa trén nú þegar tugi lítra á hverjum degi. Við fylgdumst með þegar Benjamín Örn Davíðsson aðstoðarskógarvörður tæmdi úr fötunum í gær.

Safataka var lítillega reynd í fyrravor í Vaglaskógi og lofaði góðu. Verkefnið er unnið í samvinnu við fyrirtækið Foss Distillery sem framleiðir nú þegar líkjör og snafs úr birkisafa og hyggur á framleiðslu birkisíróps, bragðefna og fleiri vara á komandi árum. Nóg er af stórum og heilbrigðum birkitrjám í Vaglaskógi til að taka safa úr en gæta verður þess að taka ekki úr sama trénu ár eftir ár heldur leyfa þeim að jafna sig á milli.

Í síðustu viku var settur aftöppunarbúnaður á alls 41 tré neðan við fræhúsið svokallaða á Vöglum sem stendur þar við starfstöð Skógræktar ríkisins í Vaglaskógi. Nokkuð er enn í að nægileg reynsla hafi fengist af slíkri safatöku hérlendis en Skógræktin gerir nú tilraunir bæði á Vöglum og á Tumastöðum í Fljótshlíð í samstarfi við Foss Distillery sem útvegar búnaðinn og tekur við safanum.

Búnaðinum komið fyrir

Reynt er að velja tré sem líta út fyrir að vera hraust og með heila og lifandi krónu. Ekki er mælt með að tappa af trjám sem eru grennri en 12-14 sm. Borað er í stofninn í innan við eins metra hæð með 12 mm trébor. Fundinn er sæmilega sléttur staður á berkinum, bornum vísað eilítið upp á við og borað varlega a.m.k. 6 sm inn í bolinn. Gott er að skola laust sag úr sárinu, til dæmis með úðabrúsa. Síðan er sérstökum tappa með slöngu þrýst með handafli inn í gatið og slegið létt á með hamri til að tappinn sitji þétt í gatinu, ekki þó of fast.

Ef vatnsupptaka í trénu er komin vel af stað ætti fljótlega að fara að seytla safi í slönguna. Slangan er höfð nógu löng til að hún nái niður í fötu með loki sem stillt er upp við stofn trésins. Gert er gat í lok fötunnar sem passar svo að slangan sitji þétt í lokinu.

Mikilvægt að tæma reglulega

Föturnar eru tæmdar tvisvar á dag og reiknað er með að safatakan standi yfir í hálfan mánuð eða svo. Sjá verður þó til með það eftir veðurfari. Nú er til dæmis spáð hreti næstu vikuna og þá er hætt við að hægi á starfsemi trjánna á meðan. Geymsluþol birkisafans er allt að fimm dögum í kæliskáp en best er að safinn komist sem fyrst í frysti ef meiningin er að nota hann í matvælavinnslu.

Í gær söfnuðust tæplega 30 lítrar úr trjánum á Vöglum. Benjamín telur að trén eigi að geta gefið talsvert meira í einu og hann vonast til að safastreymið aukist þegar trén springa betur út. 

Þegar föturnar hafa verið tæmdar í stærri tunnur er farið með tunnurnar inn í skemmu þar sem safanum er hellt í stóra fötu með lítrakvarða til að fylgjast með því hversu mikið trén gefa. Allt er þetta skráð niður nákvæmlega ásamt upplýsingum um veðrið þegar safinn var tekinn. Á mælifötunni er krani og úr honum streymir safinn gegnum sigti í fimm lítra fötur. Þessar fötur má ekki fylla alveg því safinn er því næst settur í frysti og við það þenst vökvinn út.

Hvað hefur áhrif á „nyt“ trjánna?

Meðal þess sem reynslan á eftir að kenna betur er hvenær best sé að hefja safatökuna að vori í Vaglaskógi og hvernig velja má tré sem líkleg eru til að gefa mikinn safa. Eftir þessa fyrstu safatökudaga er ekki hægt að sjá neitt samhengi milli þess hversu vel einstök tré gefa og ýmissa þátta sem manni gæti virst að hefðu áhrif. Settur er blár borði á þau tré sem borað hefur verið í og bætt við rauðum borða á þeim trjám sem gefa lítinn safa. Sum trén bera merki um fúa neðst á stofninum en ekki er að sjá að þau gefi minna en trén sem ekkert sér á. Ekki er heldur að sjá að þau tré sem komin eru lengst af stað gefi meira en önnur. Enn er nokkur snjór á skógarbotninum í Vaglaskógi sem heldur jarðveginum köldum. Forvitnilegt verður að sjá hvað gerist þegar snjórinn hverfur alveg. Með því að fylgjast með og skrá alla þessa þætti og fleiri til verður mögulega hægt að átta sig betur á öllu þessu samhengi.

Allra meina bót?

Upplagt er fyrir fólk sem á myndarleg birkitré að prófa sig áfram með að tappa safa af trjánum. Þegar meiri reynsla verður komin á safatökuna er aldrei að vita nema skógareigendur um allt land geti haft af því aukatekjur á hverju ári að safna birkisafa úr skógum sínum. Þar með eykst verðmæti birkis í skógrækt á Íslandi en hingað til hefur brenni verið nánast eina seljanlega afurðin sem fengist hefur úr birkiskógunum.

Birkisafinn er talinn mjög hollur. Hann má drekka beint eða kældan úr ísskáp. Sumir nota birkisafa við ísgerð, ölgerð eða ýmsa matargerð og brauð sem birkisafi er notaður í eru sögð lyfta sér sérlega vel.

Safinn inniheldur 1%-2% sykur og með því að sjóða hann niður má búa til gómsætt síróp. Þetta er upplagt að gera heima. Á eldavél tekur um þrjá tíma að sjóða vökvann úr þremur lítrum af safa.

Meðal nytsamlegra áhrifa birkisafans má nefna að fólk með birkifrjóofnæmi hefur talið sig finna minna fyrir ofnæminu ef það drekkur birkisafann meðan mest er af birkifrjói í lofti snemmsumars. Hvort birkisafi er allra meina bót skal ósagt látið en í honum eru alltént ýmis snefilefni sem nýtast líkamanum.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá þegar Benjamín Örn Davíðsson tæmdi föturnar á Vöglum í gær, mánudaginn 20. apríl, og hvernig safinn var meðhöndlaður alla leið í frystinn. Hann færði líka til tappa á tveimur stöðum og því fengum við að sjá líka hvernig borað er í trén og aftöppunarbúnaðinum komið fyrir.

Borað er skáhallt upp á við svo að safinn renni betur út úr sárinu. Notaður er
11,5-12 mm bor og borað a.m.k. 6 sm inn í stofninn.

Með handhægum úðabrúsa má skola sag úr sárinu þegar borað hefur verið í stofninn.

Tappanum með slöngunni er stungið í gatið.

Gott er að slá létt á tappann með hamri til að hann sitji þétt í gatinu.

Hér vinstra megin sést að dágóður sopi er kominn í eina fötuna og hægra megin
hellir Benjamín úr fötu yfir í fimmtán lítra tunnu.

   Safanum er hellt í mælifötu til að sjá hversu mikið trén gefa. Þaðan rennur
hann gegnum sigti í fimm lítra fötur sem settar eru í frysti. Til hægri má sjá safa
sem byrjaður er að frjósa.

Blár borði sýnir þau tré sem tappað er af. Rauður borði er notaður til að sýna þau tré
sem gefa lítið.

Vor í Vaglaskógi.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson