Börnum þykir spennandi að safna fræi. Ljósmynd: Kristinn H. Þorsteinsson
Börnum þykir spennandi að safna fræi. Ljósmynd: Kristinn H. Þorsteinsson

Gleði og eftirvænting skein úr hverju andliti þátttakenda þegar landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar um söfnun og sáningu birkifræs hófst formlega í miðvikudaginn 13. september. Fyrstu skrefin voru tekin með fræðslu tveggja sérfræðinga á sviði birkis, þeirra Þorsteins Tómassonar og Aðalsteins Sigurgeirssonar. Þeir félagar fjölluðu um birkið frá ýmsum hliðum og að því loknu var gengið út í góða veðrið og birkifræjum safnað.

Þorsteinn Tómasson fjallar um birki. Ljósmynd: Kristinn H. ÞorsteinssonMarkmið verkefnisins

Verkefnið Söfnum og sáum birkifræi er liður í því að breiða út á ný birkiskóglendi sem þakti við landnám að minnsta kosti fjórðung landsins en er nú einungis um 1,5 prósent. Markmið stjórnvalda í Bonn-áskorun Evrópulanda er að ná þessu hlutfalli upp í fimm prósent árið 2030. Mikilvægt er að sem flestar hendur leggi hönd á plóginn og því er biðlað til almennings að safna fræi og annað hvort sá því á eigin spýtur á beitarfriðuðum svæðum þar sem vilji er til að klæða landið skógi eða skila fræinu inn til söfnunarinnar.

Fræðsla og önnur aðstoð

Landsátakið býður upp á námskeið, fyrirlestra og fræðslu er lýtur að birki, söfnun fræja og sáningu fyrir t.d. skóla, félagasamtök og fyrirtæki. Nálgast má upplýsingar um það sem í boði er með fyrirspurn í gegnum netfangið birkiskogur@gmail.com

Verkefnastjóri landsátaksins er Kristinn H. Þorsteinsson með símanúmerið 839 6700.

Fræðslan fór bæði fram innan og utan dyra. Ljósmynd: Kristinn H. ÞorsteinssonViltu fá birkifræ til að sá?

Þetta árið er heldur lítið framboð á fræi í flestum landshlutum. Einhvern reyting er alls staðar að finna ef vel er leitað, líklega minnst á Norður- og Austurlandi, heldur betra sunnan- og vestanlands en eina svæðið þetta árið sem vitað er um mikið fræ er á sunnanverðum Vestfjörðum, einkum í Vesturbyggð. Nokkurt magn er til af birkifræi í frægeymslum Skógræktarinnar og ástæða til að hvetja fólk til að nýta sér það og fara út og sá, ekki síst þar sem lítið fræ er að finna. Skógræktin býður 100 gramma pakkningar sem sendar verða í pósti meðan birgðir endast. Hafið samband við Valgerði Jónsdóttur í Vaglaskógi með netfanginu valgerdur@skogur.is.

Verkefnastjóri landsátaksins er Kristinn H. Þorsteinsson með símanúmerið 839 6700.

Frétt: Pétur Halldórsson