Síðastliðinn miðvikudag komu nemendur af náttúrufræðibrautum við Menntaskólann á Laugarvatni og Fjölbrautaskólann á Suðurlandi á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Rangæinga í Bolholti. Markmið ferðarinnar var að safna nægu birkifræi til að tryggja nægt fræ til plöntuframleiðslu fyrir Hekluskógaverkefnið. Töluvert var af vel þroskuðu birkifræi á svæðinu og náðu nemendurnir að safna meira en nægu fræi fyrir verkefnið.

Þessi ferð er hluti af umfangsmeira samstarfi skólanna við Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins og Suðurlandsskóga sem verið hefur í gangi undanfarin ár. Nemendur skólanna hafa heimsótt stofnanirnar á hverju ári og/eða fulltrúar stofnananna hafa heimsótt skólana og frætt þau um skógrækt og landgræðslu.

Haustblíða var þegar nemendurnir heimsóttu Bolholt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Hrafn Óskarsson tók. /?pageid=212