Birkið í Hallormsstaðaskógi og víðar á Héraði er brúnleitt af biti haustfeta og tígulvefara. Ljósmyn…
Birkið í Hallormsstaðaskógi og víðar á Héraði er brúnleitt af biti haustfeta og tígulvefara. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Birki er nú víða brúnleitt að sjá á Héraði vegna fiðrildalirfa sem hafa náð sér vel á strik þar í sumar. Skil sjást í hlíðum og ofan þeirra er skógurinn grænn.

Ef horft er yfir Hallormsstaðaskóg og Lagarfljót sést vel hvernig birkiskógurinn er leikinn. Ljósmynd: Pétur Halldórsson Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, telur að helsti sökudólgurinn sé haustfeti og tígulvefari, fiðrildalirfur sem náð hafaað fjölga sér mikið í sumar, til dæmis í Hallormsstaðaskógi. Enn hefur ekki borið á þeim nýju skaðvöldum eystra sem farnir eru að herja á birkið í höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og víðar svo sem birkikembu og birkþélu. Því eru það fyrst og fremst fiðrildalirfurnar sem gera birkið brúnt eystra.

Að sögn Þórs virðist ætla að verða góður vöxtur í barrtrjám í skógunum eystra eins og síðustu sumur. Árið í fyrra hafi verið hagstætt öllum trjágróðri austanlands, en mikið ryð hafi þó verið í birkiskóginum það árið. Vorið var hagstætt gróðri þetta árið og án  vorfrosta. Maí og júní komu með hlýindum.

Á myndunum sem hér fylgja má sjá hvernig birkið er leikið fyrir austan. Sums staðar í hlíðum sjást skil og ofan þeirra er skógurinn grænn en brúnn neðan þeirra. Trúlegt er að hitastig hafi þarna áhrif, að fiðrildalirfurnar hafi ekki náð sér á strik til fjalla þar sem kaldara hefur verið í vor.

Vænta má þess að trén grænki nú aftur þegar lirfurnar hverfa úr trjánum en óvíst er hversu mjög ryðsveppurinn nær sér á strik í sumar. Hlýindi og þurrviðri gætu þó orðið til þess að slá á ryðið.

Texti og myndir : Pétur Halldórsson