Af Skeiðarársandi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Af Skeiðarársandi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Rannsóknir Kristins Péturs Magnússonar, erfðafræðings við Háskólann á Akureyri, sýna að það birki sem nú er að vaxa upp á Skeiðarársandi hefur að mestu leyti borist með fræi úr Bæjarstaðaskógi. Kristinn segir sandinn sýna að ekki sé nauðsynlegt að gróðursetja allt birki heldur geti náttúran séð um dreifinguna sjálf.

Fjallað var um þetta í Landanum í Sjónvarpinu og í spjalli Gísla Einarssonar við Kristin kom fram að borið hafi verið saman erfðaefni úr birkinu á Skeiðarársandi og birki úr þremur birkiskógum í nágrenninu. Nú liggi fyrir niðurstaða um faðernið, ef svo megi segja.

Kristinn hefur tekið þátt í rannsókn á birkinu á Skeiðarársandi sem Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur stýra. Hlutverk Kristins var að úrskurða um uppruna birkiskógarins á Skeiðarársandi. Kristinn greindi erfðaefni úr sýnum af birki frá Skeiðarársandi, úr Bæjarstaðaskógi, Núpsstaðaskógi og af Skaftafellsheiði. Skoðuð voru um tvö prósent erfðamengisins og alls voru borin saman um þrjátíu þúsund erfðamörk.

Í ljós kom, að sögn Kristins, að Bæjarstaðaskógur og Núpsstaðaskógur eru mjög gamlir skógar sem hafa ekki blandast mikið og líklega verið aðskildir í þúsundir ára. Hann segir að þrátt fyrir að talsverður erfðabreytileiki hafi greinst í birkinu sem er að vaxa upp á Skeiðarársandi hafi samanburður einstaklinga þar við birki úr gömlu skógunum áðurnefndu leitt í ljós langmestan skyldleika við birki úr Bæjarstaðaskógi. Að litlum hluta sýni þeir skyldleika við birki af Skaftafellsheiði, mögulega vegna þess að þar á milli sé eitthvert flæði erfðaefnis. Skyldleiki við birki úr Núpsstaðaskógi sé hins vegar hverfandi.

Nú er hartnær aldarfjórðungur frá því að fólk tók eftir því að birkiplöntur voru farnar að gægjast upp úr sverðinum á Skeiðarársandi. Þar er að vaxa upp eitt stærsta birkiskóglendi landsins sem gæti náð yfir um 35 ferkílómetra svæði. Kristinn segir merkilegt að sjá hversu duglegt birkið sé að sá sér út á sandinum. Þar sé reyndar jarðvegsmyndun með hjálp mosa, sveppa og örvera og af þessu megi sjá að ekki sé nauðsynlegt að gróðursetja öll trén svo að birkið breiðist út heldur geti náttúran séð um það sjálf. Þetta rímar við áherslur Skógræktarinnar sem mælir með þeirri aðferð til útbreiðslu birkis að gróðursetja duglegt birki í dreifða skika eða „eyjar“ þaðan sem það er látið sjá um að dreifa sér sjálft.

 „Og það er ljóst að þetta birki kemur úr Bæjastaðaskógi, sem er ekki slæmar erfðir því þessi gamli birkiskógur þykir sérlega fallegur,“ segir Kristinn Pétur Magnússon erfðafræðingur í samtali við Landann.

Texti: Pétur Halldórsson