Frétt um Hafnarsand ekki gagnrýni á það sem þegar hefur verið unnið þar

Í frétt um möguleika skógræktar á láglendiseyðimörkum sem hér birtist 3. apríl sl. undir fyrirsögninni „Eyðimörkin í Ölfusi“ var á engan hátt ætlunin að varpa rýrð á það mikla starf sem Landgræðsla ríkisins og aðrir aðilar hafa unnið á Þorlákshafnarsandi og var í raun forsenda byggðarinnar í Þorlákshöfn á sínum tíma. Enda er binding mesta foksandsins ein af forsendum þess að þarna séu nú möguleikar til skógræktar. Hafi það verið skilningur einhvers að verið væri að gera lítið úr landgræðslustarfinu sem á undan er gengið, þá er það af og frá. Tilgangurinn var að benda á þá möguleika sem eru víða á láglendi Íslands til að rækta arðbæran skóg á rýru landi.