Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins er grein eftir þá Friðgeir Grímsson og Leif A. Símonarson um beyki úr íslenskum setlögum.  Þar kemur m.a. fram að fyrir 13-15 milljón árum síðan voru hér skógar þar sem beyki var algengt.  Tegundin kallast Fagus friedrichii og líkist talsvert núlifandi ameríkubeyki (Fagus grandifolia). Í 10-12 milljón ára gömlum setlögum hafa steingerfingar beykis ekki fundist en fyrir 8-9 milljón árum síðan er beyki komið aftur í skóga frumíslands, nú önnur tegund sem kallast Fagus gussonii og líkist meira hinu núlifandi evrópska skógarbeiki (Fagus sylvatica) sem margir þekkja, t.d. frá Danmörku.  

Friðgeir segir að steingerfingalögin bendi til þess að skógarnir hafi verið blandaðir frekar en hreinir beykiskógar.  Á meðfylgjandi mynd, sem tekin var í Karpatafjöllum í Rúmeníu nú í nóvember, má sjá blandskóg af beyki, silfurþini, rauðgreni og evrópulerki í fjallshlíð.  Skógar Íslands á seinni hluta Tertíer tímabilsins hafa e.t.v. líkst þessum að einhverju leiti þótt tegundirnar hafi ekki verið þær sömu.