Ætlar þú að tína sveppi eða ber nú í haust? Ber og sveppir finnast víða í þjóðskógum landsins.

Í þjóðskógunum á Norðurlandi er staðan æði misjöfn. Ber og sveppir eru víða stutt á veg komnir en annars staðar, þar sem snjóléttara var í vetur, má finna bláber og aðalbláber, t.d. í vestanverðum Fnjóskadal. Lítið er um krækiber og hrútaber. Sveppir eru nýfarnir að sjást á svæðinu.

Í þjóðskógunum á Austurlandi er töluvert af bláberjum og rifsberjum. Lítið er af krækiberjum í skógunum og hrútaber eiga enn nokkuð eftir til að ná fullum þroska. Lítið er af lerkisvepp á Hallormsstað, enda flestir lerkireitir þar orðnir of gamlir og því líklegra að leita í yngri reitum á svæðinu. Kúalubba má hins vegar finna hér og þar í birkiskóginum.

Í þjóðskógunum á Vesturlandi er berjaspretta heldur slök þetta árið. Helst eru það þó krækiber sem hafa þroskast nægilega en víða eru ila þroskuð bláber. Sveppaspretta er í meðallagi.

Í þjóðskógunum á Suðurlandi er frekar lítil berjaspretta miðað við undanfarin ár en víða má þó finna bláber, hrútaber og krækiber.  Sveppir eru heldur seint á ferðinni.

Gagnlegar upplýsingar

  • Mikinn fróðleik um ber og fréttir af berjasprettu má finna á vefsíðu Berjavina.
  • Skógræktin hefur tekið saman stuttan leiðbeiningarbækling sem áhugafólk um sveppatínslu getur stuðst við. Sveppahandbók Skógræktarinnar
  • Náttúrufræðistofnun Íslands hefur skráð margar tegundir sveppa og mögulegt er að skoða útbreiðslu þeirra á Plöntuvefsjá stofnunarinnar.

 

Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir