Skúli segir ekki lengur svigrúm til að bíða eftir að orð ráðamanna um aukna skógrækt verði að verule…
Skúli segir ekki lengur svigrúm til að bíða eftir að orð ráðamanna um aukna skógrækt verði að veruleika og því verði rekstri Barra hætt næsta sumar.

Þá verða aðeins tveir skógarplöntuframleiðendur eftir

Ákveðið hefur verið að loka gróðrarstöð Barra á Fljótsdalshéraði. Ríkisútvarpið greindi frá þessu í sjónvarpsfréttum í gær. Framkvæmdastjórinn segir fyrirtækið hafa gefist upp á sviknum loforðum um aukna skógrækt og kolefnisbindingu. Í fréttinni er vakin athygli á því að helmingi færri tré séu nú gróðursettá landinu en fyrir tíu árum.

Fréttin er á þessa leið:

Barri er fullkomnasta skógarplöntu­stöð landsins en nú eru plöntur aðeins ræktaðar í öðru gróðurhúsinu. Þegar okkur bar að garði var verið að undir­búa árlegan jóla­markað sem kenndur er við fyrir­tækið í sam­starfi við Skógræktina og skógarbændur á Austurlandi. Ákveðið hefur verið að hætta rekstri í sumar þegar allar plöntur hafa verið afhentar. „Við vorum bara eftir þrjú sem höfum verið að bjóða í núna undanfarið og það var tekin ákvörðun núna um daginn að bjóða ekki í þar sem magnið sem um er að ræða á landinu til að framleiða árið 2019 er komið niður í 2,5-2,6 milljón plöntur. Það þýðir bara eitt að það er ekkert pláss fyrir alla á markaðnum. Við þurftum þá að fá tvo þriðju af þeim pakka til að í rauninni að það sé einhver glóra í að halda þessum rekstri áfram. Þannig að við tókum þá ákvörðun að hætta að brenna peninga,“ segir Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Barra.


Fyrirtækið hefur ítrekað þurft að auka hlutafé og hafa sveitarfélögin á héraði lagt fé í fyrirtækið. Árið [2013] var sam­þykkt þingsályktun um aukna skógrækt en gekk ekki eftir. Plöntuframleiðsla dróst verulega saman eftir hrun, jókst lítillega 2015 og 2016 en Skúli telur útlit fyrir enn frekari samdrátt sé litið til síðustu útboða. „Við höfum náttúrulega staðið lengi í þeirri trú að menn meintu eitthvað með kolefnisbindingu með skógrækt og að auka skógrækt til að búa til skógarauðlind fyrir Ísland. En það eru bara orð það eru engar gjörðir.“

Ársverk voru 17 í Barra þegar best lét en aðeins fimm hafa unnið þar síðustu ár. Eftir lokun Barra verða aðeins eftir tveir framleiðendur á skógarplöntum, Sólskógar í Eyjafirði og Kvistar á Suðurlandi. Skúli segir sorglegt að horfa á eftir fullkominni aðstöðu og þekkingu ónýtast. Aðspurður af hverju fyrirtækið bíði ekki eftir því að sjá hvað nýja ríkisstjórnin vilji gera segir Skúli. „Það tekur bara svo langan tíma. Við höfum ekki það svigrúm sem við þyrftum að hafa með þolinmóðu fjármagni til þess að stoppa upp í það gat. Og maður er búinn að upplifa þetta ár eftir ár að menn lýsa þessu yfir en það gerist aldrei neitt,“ segir Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Barra.