Mynd: Pxhere.com
Mynd: Pxhere.com

Öll meðferð elds utan dyra hefur nú verið bönnuð á Suður- og Vesturlandi og hafa Almannavarnir lýst yfir hættustigi vegna mögulegra gróðurelda. Bannsvæðið nær frá Eyjafjöllum að Breiðafirði. Skógræktin brýnir fyrir öllum eigendum og umsjónarfólki skóga að hafa gott eftirlit með skógunum og setja upp merkingar.

Undir bannið fellur hvers kyns opinn eldur utan dyra og sömuleiðis eldur í örnum og kamínum innan húss. Ekki er einungis bannað að kveikja upp eld á víðavangi heldur er einnig bannað að grilla, hvort sem það er einnota kolagrill, gasgrill eða annar eldunarbúnaður þar sem eldur logar. Skógræktin lítur svo á að einnig sé bannað reykja utan dyra á hinu skilgreinda svæði.

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vesturlandi og Vestfjörðum, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi ákvað fyrir nokkrum dögum að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Nú hefur því verið breytt í hættustig. Lítið hefur rignt á þessu svæði undanfarið og lítil von er um úrkomu að ráði samkvæmt veðurspám. Þá má líka benda á að vegna þess kalda og þurra veðurs sem ríkir á landinu tekur gróður hægt við sér og sina og mosi er því áfram eldfimur. Mælar Veðurstofunnar sýna að víða er mikil hitasveifla dags og nætur. Sums staðar fer hitinn í tíu stig á daginn en niður í tíu stiga frost á nóttunni. Þetta heldur aftur af gróðrinum að byrja að vaxa.

Gróðureldar, eldvarnir, skógareldur, skógareldar, gróðureldur, sinubruni, sinueldar, kjarreldar, kjarreldurGætum skóganna!

Skógræktin brýnir fyrir öllum skógareigendum og umsjónarfólki skóglendis að gæta vel að svæðum sínum, setja upp  merkingar sem minna á bann við meðferð elds og fylgjast vel með ferðum fólks um skógana. Brýnt er að fólk geri sitt ýtrasta til að draga eins og mögulegt er úr hættunni á að gróðureldar brjótist út og berist í skóglendi.

Í þjóðskógunum sem Skógræktin hefur umsjón með á Suður- og Vesturlandi er nú unnið að því að setja upp tilkynningar á nokkrum tungumálum. Búnaður til uppkveikju og eldamennsku í eldaskálum og grillskýlum er fjarlægður og skógarverðir hafa aukið eftirlit með skógunum meðan þetta ástand varir.

Frekari ábendingar

  • Kveikið EKKI eld, hvorki innan né utan dyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira)
  • Reykið EKKI utan dyra
  • Notið EKKI einnota grill eða venjuleg kola- og gasgrill
  • Kannið flóttaleiðir við sumarhús
  • Hugið að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gerið flóttaáætlun
  • Vinnið ekki með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista
  • Fjarlægið eldfim efni við hús (hugið að staðsetningu gaskúta)
  • Bleytið í gróðri kringum hús þar sem þurrt er

Neyðarnúmerið er 112

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.

Texti: Pétur Halldórsson