„Bankastjórinn“ Kristinn H. Þorsteinsson hjá Skógræktarfélagi Kópavogs rótar í fræhaugnum mikla ásam…
„Bankastjórinn“ Kristinn H. Þorsteinsson hjá Skógræktarfélagi Kópavogs rótar í fræhaugnum mikla ásamt Áskeli Þórissyni Landgræðslunni. Trúlega væri mýkra að stinga sér í þennan haug en í peningahauga Jóakims frænda úr Andrésblöðunum. Ljósmynd: Áskell Þórisson.

Mjög góður árangur náðist með birkifræsöfnunarverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í haust. Enn er að berast inn fræ þótt söfnuninni sé formlega lokið. Dæmi eru um einstaklinga sem tíndu yfir 20 kíló af fræi. Lionsfélagar lögðu samtals um 800 vinnustundir í að safna og sá birkifræi. Stefnt er að því að endurtaka verkefnið að ári. 

Verkefnið tókst framar vonum og mikill áhugi reyndist vera hjá þjóðinni að safna og sá birkifræi, sem sást meðal annars á mikilli umferð á Facebook-síðu verkefnisins, Söfnum og sáum birkifræi, og annarri síðu birkiáhugafólks sem sett var upp í haust undir heitinu Birkibændur. Skólahópar allt frá leikskóla upp í framhaldsskóla, fóru út að tína fræ, tuttugu Lionsklúbbar á landinu lögðu um 800 vinnustundir í fræsöfnun og -dreifingu og tugir sjálfboðaliða dreifðu fræi í landi Kópavogsbæjar í Selfjalli í Lækjarbotnum tvo laugardaga í október, þótt veirufaraldurinn kæmi í veg fyrir að hægt væri að senda stóra hópa til frædreifingar þegar á leið. En tíðarfarið í haust hefur verið verkefninu mjög hagstætt og sömuleiðis var árið 2020 gott fræár hjá flestum trjátegundum víðast hvar á landinu.

Kvarttonn af birkifræi

Birkifræ er enn á trjánum og tíðarfarið hefur verið gott í haust til frætínslu- og sáningar. Fræ er enn að berast og í síðustu viku komu t.d. tvær Lionskonur með ríflega 20 kíló af fræi. Ljósmynd: Áskell ÞórissonPrentmet Oddi lagði 10.000 pappaöskjur til verkefnisins sem lágu frammi í Bónusverslunum þar sem einnig voru tunnur frá Terra til að taka við fræinu. Öskjurnar gengu allar út en fólk skilaði fræi líka í annars konar pappaöskjum eða bréf- og taupokum. Gróflega hefur verið áætlað að um 270 kíló af fræi hafi skilað sér, mest á suðvesturhorninu, eða rúmlega fjórðungur úr tonni. Myndarlegur haugur er nú af fræi í húsakynnum Skógræktarfélags Kópavogs sem Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsins, hefur séð um að þurrka og gera klárt til dreifingar. Stefnt er að því að dreifa hluta af þessu fræi með sáningarvél á Hekluskógasvæðinu og væntanlega fer hluti þess einnig til áframhaldandi dreifingar í Lækjarbotnum.

Enn erfiðara er að áætla hversu miklu fræi fólk sáði víða um land á eigin spýtur en miðað við frásagnir og myndir fólks á samfélagsmiðlum, fregnir frá Lionsfólki og fleiri tíðindi sem borist hafa er mikið fræ komið í jörð hér og þar um landið sem vonandi mun spíra vel að vori. Besti árangurinn af verkefni sem þessu væri sá að það yrði einhvers konar þjóðaríþrótt meðal landsmanna að safna efniviði í aukna útbreiðslu skóga og koma honum af stað úti í náttúrunni.

Allir til í tuskið aftur að ári

Samstarfsaðilar Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í þessu verkefni eru ánægðir með árangurinn og lýstu áhuga á að halda því áfram á fundi sem haldinn var í morgun. Skógræktarfélag Íslands er með í samstarfinu og af aðildarfélögum þess hvíldi mestur þunginn á Skógræktarfélagi Kópavogs sem lagði drjúgan skerf til verkefnisins. Bónus, Terra og Prentmet Oddi hyggjast taka þátt í átaki um birkifræsöfnun og -sáningu næsta haust og sömuleiðis Lionshreyfingin og Landvernd. Næstu misseri verður unnið að því að útfæra verkefnið enn betur, meðal annars með aukinni þátttöku skólafólks, Lionsklúbba og fleiri félagasamtaka. Jafnframt verður hugað betur að því hvernig gera megi fólki kleift að dreifa fræi á eigin spýtur á svæðum sem tilgreind verða og auglýst til frædreifingar.

Fræhaugurinn í Kópavogi er stór og hann hefur lent í kastljósi fjölmiðla undanfarna daga. Sagt var frá honum og sýnt í fréttum Sjónvarps á miðvikudaginn var en svo fjallaði Morgunblaðið um hann í laugardagsblaði sínu 7. október. Í báðum tilvikum var rætt við Kristin H. Þorsteinsson og í Morgunblaðinu fær hann hinn skemmtilega titil bankastjóri. Umfjöllun Morgunblaðsins er á þessa leið:

Mikið af fræjum í bankanum

Kristinn H. Þorsteinsson neitaði því ekki að titla mætti hann sem bankastjóra í birkibankanum þegar haft var samband við hann í vikunni. Hann er framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs og í húsakynnum félagsins í Guðmundarlundi hefur verið myndarlegur bingur af fræjum sem bíða þess að vera sáð víða um land.

Frétt Morgunblaðsins. Þar var tekið á móti um 30 milljónum fræja af höfuðborgarsvæðinu, sem af gætu sprottið milljónir birkitrjáa ef öll skilyrði verða fræinu hagstæð en árangurinn kemur í ljós á næstu árum. Kristinn er ánægður með árangurinn í landsátaki í söfnun birkifræja í haust og segist sannfærður um að framhald verði á með mikilli þátttöku almennings.

Fjölskyldur og hópar

„Mjög mikið var um að fjölskyldur, vinnustaðahópar og skólafólk legði okkur lið. Ótrúlega margir voru tilbúnir að taka þátt í þessu verkefni til að klæða landið skógi og endurheimta fyrri gæði og um leið vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ segir Kristinn um þessa nýju almenningsíþrótt.

Tugir sjálfboðaliða dreifðu fræi í landi Kópavogsbæjar í Selfjalli við Lækjarbotna tvo laugardaga í haust. Kristinn segir að afturkippur hafi komið í sáningu vegna kórónuveikinnar því ekki hafi verið hægt að stefna fólki saman í þeim aðstæðum.

Þráðurinn verður tekinn upp við sáningu næsta vor í samvinnu Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar. Kristinn segir að slíkt hið sama verði gert víða á landinu og þá er talsverð innistæða til að taka út úr fræbankanum. Fræin sem eftir eru verða þurrkuð og geymd í kæli eða frysti í bækistöðvum Landgræðslunnar.

Einstaklingar og hópar dreifðu fræi á eigin vegum víða um land í haust. Til að mynda söfnuðu og dreifðu margir skólahópar, allt frá leikskóla upp í framhaldsskóla, og átján Lionsklúbbar réðust í fræsöfnun og dreifingu nú í haust.

Nú þegar hefur verið sáð töluverðu af fræi á Hekluskógasvæðinu. Í ráði er að nýta birkifræ þar og á Hólasandi samhliða kjötmjölsdreifingu í svæði sem auðguð hafa verið með gori eða moltu.

Mikið var af birkifræjum í ár, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi.

Áberandi var hversu mikið fræ var á tilteknum svæðum, svo sem í Þórsmörk og í Steinadal í Suðursveit og á birki ættuðu úr Bæjarstaðaskógi. Sums staðar var lítið sem ekkert fræ að finna, sérstaklega á stöðum þar sem birki er mjög lágvaxið og kræklótt svo sem í Hítardal á Vesturlandi. Möguleg skýring er sú að eftir því sem birki er meira blandað fjalldrapa treystir það meira á dreifingu og endurnýjun með rótarskotum frekar en með fræi, samkvæmt upplýsingum frá Skógræktinni.

Fræsöfnunarverkefnið var skipulagt af Landgræðslunni og Skógræktinni í samstarfi við Bónus, Terra, Prentmet Odda, Lions og Landvernd. Síðar komu ýmsir aðrir aðilar myndarlega að verkefninu, til að mynda Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær.

Texti: Pétur Halldórsson