Tilbúinn skógur gefur hreint loft og mat á heimssýningunni í Mílanó

Í tilefni af títtnefndum degi jarðar á miðvikudaginn var tók FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, höndum saman með Austurríkismönnum til að gefa heimsbyggðinni svolitla nasasjón af einstöku framlagi Austurríkis til heimssýningarinnar í Mílanó, 2015 World Expo, sem hefst fyrsta maí. Sýningarskáli Austurríkis kallast á ensku „Breathe“ sem gæti hvort tveggja staðið fyrir boðháttinn „andið“ eða nafnháttinn „anda“. Hvort heldur sem er þá verður örugglega þægilegra andrúmsloft í þessum skála en öðrum á sýningunni. Í skála Austurríkismanna hefur verið settur upp raunverulegur austurrískur skógur með öllu sem honum tilheyrir.

Meiningin með skálanum er að sýna fólki með beinum hætti það hlutverk sem skógar gegna við að útvega hreint loft og næringarríka lífræna fæðu. Þetta rímar fullkomlega við þema heimssýningarinnar í ár sem er brauðfæðing heimsins, orka fyrir lífið, (Feeding the Planet, Energy for Life).

Í myndbandi sem FAO hefur látið gera er sýnt hvernig tré og aðrar plöntur, mosi og jarðvegur var fluttur á staðinn og vandlega komið fyrir í brekkum og hæðum sem settar höfðu verið upp til að líkja eftir dæmigerðu austurrísku landslagi. Þetta var ekkert áhlaupaverk enda vandi að líkja eftir náttúrunni, ekki síst í stórborg öðru landi með annað loftslag.

Svölu og hreinu lofti úr þessum tilbúna skógi er dælt um loftstokka inn í sali sýningarskálans og öll orka sem notuð er verður til á staðnum með hjálp sólarsellna af nýjustu tækni. Sellurnar hafa verið settar upp í mynd stórrar sólar á þaki skálans og þær eru af glænýrri gerð slíkra sellna.  

Skógurinn verður kærkomið skjól fyrir sýningargesti frá brennandi sumarhitanum á Ítalíu. En hann verður líka dæmi um það hvernig grænt borgarskipulag og arkitektúr getur umbylt hugmyndum okkar um þéttbýli og þróað borgir framtíðarinnar. Í hita og mannmergð mengaðra borga er hægt að nota tré og annan gróður til að auka lífsgæði fólks verulega.

Í samtali við vef skógræktarsviðs FAO segir Bernhard Scharf hjá lífvísinda- og auðlindaháskólanum í Vínarborg að loftslagsbreytingarnar og sístækkandi borgir heimsins skapi margs konar vandamál. Lífsgæði fólks skerðast meðal annars vegna þess að í stórborgunum myndast hitaeyjar vegna mikillar orkunotkunar á afmörkuðu svæði. Lausnirnar við öllum þessum vandamálum sé að finna í náttúrunni, að koma með gróður inn í borgirnar og leitast við að rækta gróðurinn með þeim hætti að hann veiti vistkerfisþjónustu sem bæti lífsskilyrði íbúanna.

Tilbúni skógurinn í sýningarskála Austurríkismanna í Mílanó miðlar ekki einungis heilnæmu lofti. Hann gefur líka afurðir sem matreiddar verða þar á veitingastað meðan á heimssýningunni stendur. Þar verður unnið með dæmigerðar afurðir úr austurrískum skógum eins og hjartarkjöt, sveppir, hunang og villtar krydd- og matjurtir..

Eduardo Rojas-Briales, aðstoðarforstjóri skógarsviðs FAO, segist mjög ánægður með að Austurríkismenn skyldu ákveða að taka skóga fyrir sem eitt af áherslumálum sínum á heimssýningunni í Mílanó. Hlutverk skóga að tryggja matvælaöryggi og fullnægjandi næringu fólks skipti sköpum, sérstaklega fyrir þær milljónir fólks sem treysta á skógana sér til lífsviðurværis og framfærslu. Skógarnir sjái líka fólki fyrir eldiviði og þriðjungur mannkyns noti við til eldamennsku.

Heimssýningar hafa verið vettvangur nýjunga í byggingartækni og byggingarlist en einnig vísindum og tækni, allt frá því að Frakkar gáfu tóninn með Eiffel-turninum 1889 og fyrsti síminn var sýndur í Chicago 1893.

Í myndbandi FAO má fá betri innsýn í þennan spennandi sýningarskála Austurríkismanna. Heimssýningin í Mílanó verður opnuð 1. maí og stendur fram til 31. október í haust.

Heimild: FAO
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson