Stefnt að 40% samdrætti í nettólosun útgerðarinnar

Í þeim markmiðum sem stjórnvöld vinna nú að í loftslagsmálum felst að auka skógrækt og landgræðslu til að binda koltvísýring og minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Í annarri umræðu fjárlaga sem nú fer fram á Alþingi er gert ráð fyrir 500 milljóna króna aukningu til þessara mála á næsta ári.

Stefnt er að því að draga úr nettólosun íslensku útgerðarinnar um 40% fram til 2030 og líklegt verður að telja að því verði ekki náð með tækniþróun og endurnýjun skipaflotans nema að hluta. Því sem eftir stendur má auðveldlega ná með aukinni ræktun og þá er árangursríkast að rækta gjöfulan nytjaskóg.

Fjallað var um málið í hádegisfréttum Útvarps í dag og rætt við Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem segir að sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sé síður en svo orðin tóm. Ægir Þór Eysteinsson fréttamaður ræddi við Sigrúnu og fréttin er á þessa leið:

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir nýja sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum metnaðarfulla en ekki orðin tóm.

Sóknaráætlunin er til þriggja ára, og er henni ætlað að skerpa á áherslum landsins í loftslagsmálum. Áætlunin byggir á sextán verkefnum sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Sóknaráætlunin verður innlegg Íslands á alþjóðlegu loftslagsráðstefnunni sem hefst í París 30. nóvember. Aukin rafbílavæðing og minnkun losunar í sjávarútvegi Átta verkefni miða að því að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og landnotkun. Þar er meðal annars gert ráð fyrir því að efla innviði á landsvísu fyrir aukna rafbílavæðingu þannig að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum verði orðið tíu prósent árið 2020. Þá verður sett aukið fé í landgræðslu og skógrækt, hafist handa við endurheimt votlendis og ráðist í átak til að draga úr matarsóun.

„Það sést í umræðunni núna til annarrar umræðu í fjárlagafrumvarpinu, að það er aukið fé til umhverfismála. Frá ríkisstjórninni kemur um 550 milljóna króna aukning á milli umræðna. Þetta er í meðförum þingsins þannig að það er varasamt að nefna tölur, en vilji ríkisstjórnarinnar kemur náttúrulega fram í þessum tölum. Þannig að þetta eru ekki orðin tóm, við ætlum að hefjast handa og við ætlum að setja á laggirnar, í samvinnu við fjölmarga aðila, þessi verkefni og vera með ábyrgðaraðila með hverju verkefni. Og það er líka mikilvægt að við getum komið frekari rannsóknum og vöktum á þannig að við metum losun frá einu ári til annars,“ segir Sigrún Magnúsdóttir í samtali við fréttastofu.

Samkvæmt sóknaráætlun stjórnvalda verða unnir vegvísar um minnkun losunar í sjávarútvegi og landbúnaði, meðal annars með það að markmiði að draga úr losun koldíoxíðs í sjávarútvegi um fjörutíu prósent til ársins 2030.

„Ég hef nú nokkra trú á að við séum að brjóta ákveðið blað núna hér, með því að nú er komið frá orðum og við erum farin að framkvæma.“

Rétt er að vekja athygli á því að í dag kl. 15.30 verða sérstakar umræður á Alþingi um loftslagsmál og markmið Íslands. Málshefjandi er Katrín Júlíusdóttir og til andsvara verður umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir.

Texti: Pétur Halldórsson