Kennarar á Austurlandi töldu nýju námskrána auka möguleika á að tengja saman námsgreinar, meðal anna…
Kennarar á Austurlandi töldu nýju námskrána auka möguleika á að tengja saman námsgreinar, meðal annars með skógartengdu útinámi. Hér æfa þau tálgutæknina.

Kennarar á Austurlandi lærðu um skógartengt útinám

Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins, veitti fræðslu um verkefnið Lesið í skóginn á þingi Kennarasambands Austurlands sem fram fór á Seyðisfirði á föstudaginn var, 11. september. Námskeiðið sóttu list- og verkgreinakennarar frá skólum á Austurlandi allt frá Vopnafirði að Höfn í Hornafirði. Sumir þeirra höfðu sótt ýmis LÍS- námskeið áður, annað hvort í Háskóla Íslands eða hjá Landbúnaðarháskólanum, en vildu bæta við þekkinguna og rifja upp tæknina. Kennararnir eystra voru ánægðir með námskeiðið og töldu að í nýju námskránni væri sóknarfæri í þessum efnum. Hún gæfi færi á að samþætta námið betur en áður, meðal annars með því að tengja hefðbundna kennslu við skóg og náttúru með útinámi. Bjarki Sigurðsson, verkstjóri hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað, aðstoðaði við námskeiðið.

Námskeið Ólafs, Lesið í skóginn – ferskar viðarnytjar og tálgutækni í skólastarfi, er hugsað fyrir kennara á öllum skólastigum. Lögð er áhersla á að þátttakendur geti tileinkað sér „öruggu hnífsbrögðin“ í tálgun, notað þau í kennslu, lært að sækja ferskt skógarefni úr nærumhverfi sínu og vinna nytjahluti eða skrautmuni úr því með nemendum. Í kennslunni eru fléttaðar saman námsgreinar svo sem smíði, tónmennt, náttúrufræði og stærðfræði og kennsluaðferðir tengdar við einstaka grunnþætti menntunar, svo sem sjálfbærni, lýðræði, sköpun, fjölbreytta kennsluhætti og nemendamiðaðar og valdeflandi leiðir í námi.

Þátttakendur eru jafnan beðnir að mæta í tálguvænum klæðnaði og gera ráð fyrir útiveru.

Bjarki Sigurðsson, verkstjóri hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað,
leiðbeinir hér Baldri Hallgrímssyni frá Vopnafirði við að kljúfa viðinn.

"> Námskeiðið eystra var mjög vel sótt og kennararnir áhugasamir.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Ólafur Oddsson