Ný skýrsla um ástand skóga heimsins kynnt í dag

Enn er landbúnaður helsta orsök skógar­eyð­ing­ar í heiminum og því er bráð­nauð­syn­legt að tala fyrir auknu samspili land­bún­að­ar og skógræktar til að byggja megi upp sjálfbær landbúnaðarkerfi og efla fæðu­öryggi. Þetta eru meginskilaboðin í árlegri skýrslu FAO, matvæla- og landbúnaðar­stofn­un­ar Sameinuðu þjóðanna, um ástand skóga heimsins, The State of the World's Forests (SOFO). Skýrslan var kynnt í dag við upphaf 23. fundar COFO, skógarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Í fréttatilkynningu frá FAO segir að skógar hafi meginhlutverk í þróun sjálfbærs land­bún­að­ar og þar komi margt til. Skógar stuðla að eðlilegri hringrás vatns, náttúr­leg­um vörnum gegn sjúkdómum og óværu, þeir hafa staðbundin áhrif á loftslag og veðurfar og viðhalda búsvæðum fyrir frævandi dýrategundir og fleiri lífverur.

Sjálfbærnimarkmiðin sem miðuð eru við árið 2030 taka mið af því ásamt Parísar­sam­komu­lag­inu að ekki sé lengur verjandi að tala um fæðuöryggi án þess að huga um leið að umgengninni við náttúru­auð­lind­irn­ar. Á þetta benti forseti FAO, José Graziano da Silva, í opnunarræðu sinni á fundi skógarnefndarinnar. Báðir þessir sáttmálar fælu í sér að allar greinar landbúnaðar og matvælaframleiðslu gengju í takt með sameiginlega sýn á sjálfbærni að leiðarljósi. Í því samhengi skipti hlutverk skóganna sköpum.

„Meginskilaboðin frá SOFO eru skýr,“ bætti da Silva við: „Það er ekki nauðsynlegt að ryðja skóg til að framleiða meiri mat.“

Umbylting skóglendis í heiminum er að langmestu leyti vegna landbúnaðar. Að því er fram kemur í skýrslunni sem kynnt er í dag má rekja um 40 prósent skógareyðingar í hitabeltinu og heittempraða beltinu til  verksmiðjubúskapar og 33 prósent til sjálfsþurftabúskapar smábænda. Þau 27 prósent sem eftir eru helgast af því að borgir þenjast út, land er lagt undir vegi og önnur mannvirki eða námugröft.


Á hinn bóginn er líka lögð í skýrslunni áhersla á það fjölþætta hlutverk sem skógar gegna í vistkerfum jarðarinnar, hlutverk sem gagnast landbúnaði og lyftir undir matvælaframleiðslu.

Matvælaöryggi má tryggja með ýmsum ráðum eins og með aukinni framleiðni og félagslegri vernd í stað þess að þenja sífellt út þau landsvæði sem notuð eru til land­bún­að­ar á kostnað skóganna. Á þetta bendir Eva Müller sem stýrir sviði stefnu­mót­un­ar og auðlindanýtingar á skógasviði FAO. Hún segir að ólíkar greinar þurfi að stilla saman strengi og marka sameiginlega stefnu í landbúnaðarmálum, skógarmálum, matvælamálum og landnýtingu. Bæta þurfi landnýtingu og áætlanagerð, setja þessum greinum hentugan lagaramma og auka áhrif fólks í heimabyggðum og smærri hagsmunaaðila.

Og hún bætti við: „Stjórnvöld í löndum heims ættu ekki eingöngu að tryggja fólki réttinn til lands á heimaslóðum sínum heldur einnig réttinn á skógi. Bóndinn kann betur en aðrir að fara með gögn sín og gæði en skortir gjarnan til þess lögmæt verkfæri.“

Að stöðva skógareyðingu en viðhalda fæðuöryggi

Vel hirtir skógar eru ótrúlega öflug tæki til að tryggja fæðuöryggi ef svo má að orði komast. Fyrir utan ómissandi hlutverk sitt í vistkerfinu nýtist það sem skógurinn gefur vel til framfærslu fólks í dreifbýli og getur lyft fólki upp úr fátækt ef unninn er seljanlegur varningur úr skógarafurðum og vistkerfisþjónusta skóganna nýtt. Um 2,4 milljarðar jarðarbúa reiða sig á eldivið til eldunar og til að sótthreinsa vatn. Úr skógunum fæst það prótín, steinefni og vítamín sem nauðsynlegt er í mataræði fólksins í skógarsamfélögunum og þegar fæðuskortur sverfur að er öryggi í því sem skógurinn hefur að gefa.

Samkvæmt heimildum SOFO hefur meira en tuttugu ríkjum tekist frá árinu 1990 að efla fæðuöryggi heima við og um leið viðhalda eða jafnvel auka skógarþekjuna. Af því má sjá að ekki er nauðsynlegt að höggva skógana til að framleiða meiri mat. Tólf þessara landa juku skógarþekju sína um tíu prósent, Alsír, Síle, Kína, Dóminíska lýðveldið, Gambía, Íran, Marokkó, Taíland, Túnis, Tyrkland, Úrúgvæ og Víetnam.

Árangur allra þessara ríkja byggðist á svipuðum aðferðum, skilvirkari löggjöf, réttur fólks til landnýtingar var treystur, gert var betur kleift að fylgjast með breytingum á landnýtingu, hið opinbera jók stuðning við sjálfbærni í landbúnaði og skógarnytjum, aðgangur að fjármagni var auðveldaður og hlutverk og ábyrgð stjórnvalda og í heimahéruðum skýrt.


Gagnlegar rannsóknir

Í skýrslunni er vísað til rannsókna sem gerðar hafa verið í sjö löndum, Síle, Kostríka, Gambíu, Gana, Túnis og Víetnam. Þær sýna hvernig hægt er að auka fæðuöryggi en viðhalda um leið skógunum eða jafnvel stækka þá. Á árabilinu 1990-2015 náðu sex þessara landa jákvæðum árangri með tvo þeirra mælikvarða sem notaðir eru til að mæla fæðuöryggi, stöðu vannæringar og fjölda vannærðra annars vegar og skógarþekju hins vegar. Í öllum þessum löndum stækkuðu skógarnir. Sjöunda landið, Gambía, náði þeim áfanga á þessu tímabili að fækka vannærðu fólki um helming. Í fréttatilkynningu FAO er árangurinn tíundaður með athyglisverðum dæmum.

Víetnam hefur með góðum árangri gert endurbætur í landnýtingarmálum til að tryggja nýtingarrétt á landi svo hvatt verði til varanlegra fjárfestinga. Samhliða hefur verið dregið úr ríkisrekstri í skógargeiranum og í staðinn stofnuð sameignarfélög í eigu margra um skógrækt og skógarnytjar með virkri þátttöku sveitarfélaga. Úthlutun lands var komið í fastari skorður og gerðir eru samningar um skógvernd við íbúa á hverjum stað. Þessum endurbótum á landnýtingarmálum tengjast líka ákveðnar aðgerðir stjórnsýslunnar til að auka framleiðni í landbúnaði, meðal annars gegnum skattkerfið, með hagstæðum lánum, útflutningsstyrkjum, verðvernd, styrkjum til tækjakaupa og ívilnunum vegna rýrnunar að lokinni uppskeru.

Á Kostaríka náði skógareyðing hámarki á níunda áratugnum, aðallega vegna þess að skógum var breytt í beitiland. Síðan hefur þróuninni verið snúið við, mestmegnis fyrir tilstilli nýrra skógræktarlaga sem banna breytta landnotkun á náttúrlegum skógi en einnig með opinberum greiðslum fyrir vistkerfisþjónustu. Bændur fá greitt fyrir að gróðursetja tré og þannig er greitt fyrir skógvernd. Árangurinn er sá að skógarþekja hefur aukist og þekja skógar nú 54 prósent landsins.

Í Túnis var hrundið af stað opinberri þróunaráætlun sem byggist á hinu jákvæða hlutverki skóga í baráttunni við roföfl og eyðimerkurmyndun. Aukin framleiðni hefur leitt til aukinnar framleiðslu landbúnaðarins. Þessu hefur verið náð með áveitum, áburði, vélvæðingu, betra útsæði og bættum atvinnuháttum. Bændum er séð fyrir ókeypis plöntum til skógræktar og þeir fá greiddar bætur fyrir það land sem lagt er til skógræktar til að vega upp á móti tekjutapi af þeim landbúnaði sem þar var stundaður áður.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson