Um áttatíu manns á öllum aldri komu til að læra handtökin við frætínslu og sáningu trjáfræs beint í …
Um áttatíu manns á öllum aldri komu til að læra handtökin við frætínslu og sáningu trjáfræs beint í jörð sem haldið var í Heiðmörk laugardgainn 26. september. Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, leiðbeindi. Ljósmynd: Skógræktarfélag Reykjavíkur

Mikill áhugi reyndist vera á námskeiði sem Skógræktarfélag Reykjavíkur stóð fyrir í Heiðmörk á laugardaginn var þar sem Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, leiðbeindi um frætínslu af trjám og fræsáningu beint í jörð. Um áttatíu manns sóttu námskeiðið þrátt fyrir mikla rigningu.

Aðalsteinn talar við hópinn í Heiðmörk. Ljósmynd: Skógræktarfélag ReykjavíkurAðalsteinn leiðbeindi fólki einkum um söfnun köngla af greni og furu en einnig um söfnun birkifræja. Hann segist hafa fundið fyrir miklum áhuga meðal þátttakenda sem spurðu ýmissa spurninga og vildu sumir taka ærlega til hendinni við sáningu á trjáfræi til útbreiðslu á skóglendi í landinu.

Að sögn Aðalsteins sótti námskeiðið fólk úr ýmsum áttum og á öllum aldri. Þarna hafi verið allt frá kornungu fólki upp í fólk á gamals aldri en líka börn með foreldrum sínum þannig að segja má að þátttakendur hafi verið þversnið af samfélaginu. Ekki var að því sjá að fólk hefði sett veðrið fyrir sig en á laugardaginn rigndi viðstöðulaust í Heiðmörk eins og víða um landið. Fólk nefndi við Aðalstein að það hefði séð myndbönd og annað fræðsluefni á vef Skógræktarinnar sem hefði vakið áhuga þess og er gaman að vita til þess að það efni skuli skila sér til almennings og vera hvatning til góðra verka. Til þess er leikurinn gerður að fræða þjóðina um skóga og skógrækt.

Nauðsynlegt er að þekkja nýja köngla frá eldri könglum á stafafurunni, vera með góða vettlinga og nota ákveðna tækni til að ná könglunum af. Ljósmynd: Skógræktarfélag Reykjavíkur Nú er mikið fræ á ýmsum trjátegundum í Heiðmörk. Aðalsteinn hafði fyrir helgina kannað fræmagn í furu- og grenikönglum og segir hann að fræið líti vel út. Mikið verði því af vel spírandi fræi af þessum tegundum í Heiðmörk ekki síður en af birki og fleiri tegundum. Kennslan fór fram við Borgarstjóraplanið svokallaða í Heiðmörk og ekki þurfti að leita langt þar eftir fræinu.

Í hópi þátttakenda á námskeiðinu voru sem fyrr segir menn sem sýndu því áhuga að taka ærlega til hendinni reyna sig við frætínslu og sáningu, jafnvel gegn greiðslu. Skógræktin greiðir 1.000 krónur fyrir kílóið af stafafurukönglum ef þeir eru rétt tíndir og á réttum stöðum. Í Heiðmörk segir Aðalsteinn að stafafura sé mest af Skagway-uppruna. Þann efnivið notar Skógræktin einmitt mikið til að miðla til trjáplöntuframleiðenda. Þar sé því mjög hentugt að safna stafafurufræi. Taka ber þó skýrt fram að ef einhverjir hafa áhuga á að tína fræ gegn greiðslu er nauðsynlegt að hafa samband fyrst við Skógræktina og ráðfæra sig um staðarval og fleira.

Meðfylgjandi myndir eru frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur og voru teknar á námskeiðinu á laugardag.

Texti: Pétur Halldórsson