Goðsagnir um evrópska skóga.

Margskonar misskilnings gætir meðal almennings varðandi skóga í Evrópu sem og annarsstaðar.  Sérfræðingar innan skógræktargeirans vita að um er að ræða einfaldanir og afbökun á veruleikanum.  Ritið The State of the World?s Forests birtir bestu fáanlegu gögn um ástand skóga heimsins.  Þar má finna upplýsingar sem leiðrétta algengan misskilning. Tökum dæmi:

Goðsögn 1.  Skógar í Evrópa eru ekki mikilvægir.
Skógur í Rússlandi er mestur í heimi (851 milljón hektarar, fimmtungur skóga á jörðinni) og skógur þekur 38% af öðru landssvæði Evrópu.  Þessi skógur varðveitir líffræðilegan fjölbreytileika, er vörn gegn jarðvegseyðingu, gefur af sér störf, útivist, timbur og margskonar aðra vöru og þjónustu.  Margir þessara þátta hafa ekki fengið þá efnahagslegu viðurkenningu sem þeim ber.

Goðsögn 2.  Skógar Evrópu eru að minnka.
Í flestum löndum hefur þessi þróun snúist við.  Núna stækka skógar að flatarmáli sem svarar 880 þúsund hekturum á ári, aðallega með sjálfssáningu á fyrrum landbúnaðarlandi, en einnig með nýskógræktaráætlunum.  Almennt er skóglendi ekki tekið til annarrar ræktunar og settar eru strangar reglur þar um.  

Goðsögn 3.  Skógar Evrópu eru almannaeign.
Í fyrrum Sovétríkjunum er allur skógur enn í almannaeigu.  Annarsstaðar í Evrópu er staðan sú að 47% skóglendis er í einkaeigu.  Aðallega er um að ræða milljónir eigenda sem eiga minna en 5 hektara.  Slíkum eigendum fer fjölgandi vegna einkavæðingar og skaðabóta í fyrrum austantjaldslöndum.

Goðsögn 4.  Flestir skógar í Evrópu eru náttúrulegir.
Skógar í Rússlandi eru að mestu náttúrulegir, en annarsstaðar í Evrópu eru skógar að hálfu náttúrulegir, sem þýðir að flest svæði hafa orðið fyrir áhrifum mannshandarinnar í mismiklum mæli síðustu árhundruð. 

Goðsögn 5.  Eina ógn Evrópska skóga er loftmengun.
Loftmengun er alvarlegt vandamál.  En aðrir þættir valda vanda.  Eldur verður skógi að bráð sem svarar 200.000 hekturum á ári í suður Evrópu og 7 milljónum hektara á ári í Rússlandi.   Skaði verður einnig vegna skordýrafaraldra og villidýra ásamt því að ofsaveður feykir skógi niður.  Sem dæmi má nefna að fellibyljir í desember 1999 eyðilögðu skóglendi sem samsvarar þriggja ára uppskeru á aðeins tveimur dögum í Evrópu.

Goðsögn 6.  Of mikið er fellt af skógi í Evrópu árlega.
Minna en tveir þriðju af ársvexti Evrópskra skóga er felldur (að Rússlandi undanskildu) þannig að rúmtak skóganna vex stöðugt.  Í Rússandi er einungis 14 % ársvaxtarins uppskorin.  Vegna þessa binda skógar Evrópu  og Samveldanna mikið af  kolefni, u.þ.b. 540 milljón tonn árlega.

Nánari upplýsingar: State of the World?s Forests 2001

Þar má m.a. finna í töflu upplýsingar um flatarmál skóga í einstökum Evrópulöndum, ásamt öðrum hagtölum sem snerta skóga í Evrópu. Hjá þeim 40 löndum sem þar eru borin saman er skógur hæstur hundraðshluti af flatarmáli lands hjá frændum vorum Finnum (72%) en lægstur hluti hjá okkur Íslendingum (0,3%). Þegar tölur um flatarmál skóglendis eru deildar með höfðatölu íbúa, eru Íslendingar á svipuðu róli og ýmis þéttbýlli lönd Evrópu, svo sem Danmörk, Þýskaland, Belgía og Lúxemborg.

Heimild:  State of the World?s Forests 2001, FAO, 2001.