Þegar birkivínsmökkunin stóð yfir í Neðstareit í trjásafninu á Hallormsstað var logn og blíða, en þar undir lokin brast á austan andvari með ofankomu. Aspirnar í Neðstareit hafa sjaldan eða aldrei blómstrað eins mikið og í sumar og því er mikið fræfall. Réttara væri kannski að kalla það heldur fræfok, því hvert örsmátt fræ er með krans af bómullarkendum hárum sem bera það langar leiðir með vindi. Þaðan kemur enska heiti tegundarinnar „cottonwood”.

Eins og sjá má á myndinni upplifði fólkið í vínsmökkuninni hreinlega stórhríð þegar blærinn hreyfði aspirnar. Er hér með lagt til að orðið aspardrífa verði haft yfir þetta fyrirbæri, sem nú er orðið árvisst á Íslandi.