Tíu trjátegundir hafa nú náð 20 metra hæð á Íslandi. Skógræktin hefur endurheimt votlendi og tjörnina þar sem lík Jóns Vídalíns biskups var þvegið. Stórkostlegt sumar var á Þórsmörk en sumarið var líka hagstætt sjúkdómum og skordýrum sem herja á tré. Margvísleg verkefni voru unnin á öllum sviðum Skógræktarinnar 2019. Þetta er meðal þess sem fjallað er um í Ársriti Skógræktarinnar 2019 sem kom út fyrir nokkru. Ritið kemur nú út í fyrsta sinn á sérstökum ársskýrsluvef.
Skógræktin hætti að gefa Ársrit sitt út á prenti á síðasta ári og í stað þess var ákveðið að setja upp sérstakan ársskýrsluvef þar sem tíunduð væru helstu atriði úr starfseminni á viðkomandi ári. Markmið útgáfunnar er sem fyrr af tvennum toga. Annars vegar er riti sem þessu ætlað að koma á framfæri rekstrartölum og öðrum helstu staðreyndum um stofnunina og starfsemi hennar til samtímafólks en hins vegar þjóna þessar sömu upplýsingar því hlutverki að skrifa sögu stofnunarinnar fyrir komandi kynslóðir. Auk Ársritsins eru gefnar út skýrslur skógarvarða sem birtar eru á skogur.is með óbreyttum hætti.
Af efni Ársritsins að þessu sinni má nefna að eins og venjulega hefst það á yfirliti skógræktarstjóra undir yfirskriftinni Gengið til skógar. Þröstur Eysteinsson fjallar þar meðal annars um vöxt trjátegunda hérlendis og fram kemur að nú hafi tré af tíu tegundum mælst tuttugu metra há eða hærri hérlendis. Tegundirnar eru rússalerki, alaskaösp, sitkagreni, blágreni, evrópulerki, stafafura, degli, rauðgreni, fjallaþinur og álmur. Á næstu árum bætast væntanlega við skógarfura, hengibirki, gráelri, blæelri og askur því tré af þessum tegundum hafa nú náð 18 metra hæð. Þröstur nefnir einnig ný skógræktarlög sem samþykkt voru á Alþingi á árinu, vinnu að landsáætlun í skógrækt sem hófst einnig 2019, loftslagsmál og fleira.
Sviðstjórar Skógræktarinnar líta líka yfir sviðið í Ársritinu eins og venjulega. Á rannsóknasviði var sett upp sérstök loftslagsdeild til að sinna sístækkandi hlutverki vegna loftslags- og bindingarmála. Af þjónustu við skógarbændur er m.a. að segja að rúmar tvær milljónir trjáplantna voru gróðursettar í nytjaskógrækt á lögbýlum og enn er mikil aðsókn í þetta samstarf. Þá tvöfaldaðist næstum gróðursetning í þjóðskógunum 2019 frá árinu áður. Skógræktin tók þátt í samstarfi um aukna fagmennsku við uppbyggingu innviða ferðamannastaða og unnið var að nýjum stórum samstarfsverkefnum um skógrækt, m.a. með Landgræðslunni. Gróðursetning hófst til dæmis á Hafnarsandi í Ölfusi.
Fjallað er í Ársritinu um fræðslumál og skógaruppeldi, afurðamál, lands- og landshlutaáætlanir, undirbúning að vottaðri kolefnisbindingu með skógrækt og fleira. Að sjálfsögðu er þar líka hefðbundinn skaðvaldaannáll þar sem tíundað er hvernig skordýr og sjúkdómar léku tré og skóga á árinu. Skilyrði voru heldur hagstæð fyrir óværuna árið 2019.
Á árinu 2019 var ársvelta Skógræktarinnar 1.227,5 milljónir króna og afkoman 4,5 milljónir. Ársverk hjá stofnuninni voru 65,5.
Útgáfu Ársrits Skógræktarinnar seinkaði úr hófi að þessu sinni, meðal annars vegna vinnu við nýtt útgáfuform. Stefnt er að því að ritið komi út síðla vetrar framvegis, jafnvel áður en samþykktar rekstrartölur liggja fyrir. Þeim yrði þá bætt við þegar þær eru tilbúnar.