Málþing í Þjóðminjasafni Íslands 5. apríl

Réttur almennings til aðgangs að upp­lýsingum, þátttöku í ákvarðana­töku og réttlátrar málsmeðferðar í umhverfismálum verður til um­fjöll­un­ar á málþingi sem umhverfis- og auð­linda­ráðuneytið stendur fyrir 5. apríl í Þjóðminjasafninu við Suður­götu í Reykjavík.

Árósasamningurinn fjallar um að­gang að upplýsingum, þátttöku al­mennings í ákvarðanatöku og að­gang að réttlátri málsmeðferð í um­hverfismálum. Samningurinn var gerður árið 1998 og öðlaðist gildi í október árið 2001. Þrjátíu og átta ríki undirrituðu hann auk Evrópu­sam­bandsins á sínum tíma og Ísland fullgilti samninginn árið 2011 með lagasetningu.

Á málþinginu í Þjóðminjasafninu flytur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlinda­ráð­herra, ávarp og því næst talar Jonas Ebbesson, formaður eftirlitsnefndar Árósasamningsins og pró­fessor við lagadeild Stokkhólmsháskóla, um samingin og mál sem komið hafa fyrir eftirlits­nefnd­ina.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, flytur því næst erindi sem hún nefnir Að fóta sig í þátttökustiganum, Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, talar undir yfirskriftinni Orð eru til alls fyrst og eftir kaffihlé spyr Nanna Magnadóttir, formaður úr­skurð­ar­nefndar umhverfis- og auðlindamála: Hver er reynslan af kæruleiðinni? Helga Ögmundsdóttir, lektor í mannfræði og stjórnarkona í Landvernd, ræðir um hlutverk umhverfisverndarsamtaka og hags­muni almennings í lýðræðisríki.

Að síðustu verður spurt hvort innleiðingu Árósasamningsins verði einhvern tíma lokið. Um það ræðir Aðalheiður Jóhannesdóttir, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands.

Að erindum loknum flytur Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ávarp og í kjölfarið verða pallborðs­umræður. Málþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis.