COSMIC-gagnanetið. Myndin er úr greininni sem hér er fjallað um og sýnir dreifingu þeirra 44 árhring…
COSMIC-gagnanetið. Myndin er úr greininni sem hér er fjallað um og sýnir dreifingu þeirra 44 árhringjasýna sem beðmi eða sellulósi var tekinn úr til að greina árlegt magn kolefnis-14 á árabilunum 770-780 og 990-1000 (hringir og ferningar). Sjálfstæð C14-gögn úr tveimur „fljótandi“ árhringjaröðum (grænt) og fimm sýni árlegs magns geislavirku samsætunnar beryllíns 10 tekin úr borkjörnum úr ís (gult). Hvítar brotalínur marka geislakolssvæði í andrúmslofti. Kortið er byggt á þekkingu greinarhöfunda og var unnið með ArcGIS-hugbúnaðinum frá Esri, útgáfu 10.1 SP1

Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, á aðild að grein í Nature um árhringjarannsóknir sem leiða í ljós nýja vitneskju um áhrif tveggja geimviðburða sem urðu á jörðinni árin 774 og 993. Viðburðir þessir ollu snöggri hækkun á kolefni-14 í andrúmsloftinu.

Jafnvel þótt árhringir myndist í trjám á hverju ári og rekja megi sig eftir þeim aftur í tímann hafa aldursgreiningar með trjáhringjum fram að þessu ekki hlotið hlutlæga alþjóðlega viðurkenningu. Einnig hefur verið á huldu hvort atvik í loftslagsögunni þegar geislakol í andrúmsloftinu hefur aukist skyndilega skilja eftir sig merki sem eru samkvæm hvert öðru í tíma og rúmi. Nú hefur með hlutlægum hætti verið sýnt fram á áreiðanleika og nákvæmni aldursgreininga með aðferðum árhringjafræðinnar.

Ólafur Eggertsson tekur borkjarnasýni úr gömlu tré í Karpatafjöllum Rúmeníu. Áreiðanleg árhringjatímatöl eru búin til með því að taka sýni úr fjölda lifandi trjáa, fallinna trjábola, ýmiss konar trjáleifa og eldri muna eða bygginga úr timbri. Með því að tefla saman ýmsum vísindagreinum svo sem jarðfræði, viðarfræði, fornleifafræði, sagnfræði, efnafræði, eðlisfræði og fleirum má búa til samfellt árhringjatímatal sem getur gefið ýmsar upplýsingar um tíðarfar, náttúruhamfarir og fleira í sögunni. Í umræddri rannsókn voru gerðar mælingar á kolefni-14 í 484 aðskildum árhringjum trjáa sem mynduðust á árabilunum 770-780 og 990-1000. Óvenjuleg frávik kolefnis-14 sem komu upp á norðlægum slóðum, annars vegar sumarið 774 og hins vegar vorið 993, staðfesta nákvæma aldursgreiningu 44 árhringjasýna frá fimm heimsálfum. Lækkun á ellefu ára meðaltali geislakola í andrúmslofti nær miðbaug greindist einnig bæði á norður- og suðurhveli.

Sögulegar heimildir sem vitna um rauð norðurljós á þessum tímabilum renna frekari stoðum undir vitneskju manna um hvað þarna var á ferðinni.

Niðurstaða vísindahópsins er sú að þarna hafi jörðin orðið fyrir mjög mikilli róteindageislun frá sólinni. Til þess að auka skilning manna á tíðni og styrk slíkra geimatburða á jörðinni telur hópurinn nauðsynlegt að gerðar verði frekari árlegar geislakolsmælingar. Þetta sé sérlega mikilvægt svo meta megi mögulega ógn sem okkur geti steðjað að vegna geimveðra sem skella á jörðinni.

Niðurstöður þessar eru byggðar á stærsta sjálfboðaverkefni sem efnt hefur verið til meðal árhringjafræðinga í heiminum. Alls tóku 67 vísindamenn frá 57 stofnunum hvaðanæva úr heiminum þátt í verkefninu sem kallað er COSMIC. Árangurinn er sá að nú er vitað með meiri nákvæmni hvenær á þessum tilteknu árum atburðirnir urðu og hvaða áhrif þeir höfðu eftir því hvar borið er niður á jörðinni.

Verkefnið varpar ljósi á þá nákvæmu aldursgreiningu einstakra árhringja sem 44 lengstu árhringjatímatöl heims geta gefið og að ekki vanti heilu árhringina inn í röðina vegna meiri háttar eldsumbrota eins og haldið hefur verið fram. Jafnframt leiðir rannsóknin í ljós stigsmun á magni kolefnis-14 eftir breiddargráðum, annars vegar innan norður- eða suðurhvels og hins vegar milli þessara tveggja hvela jarðarinnar.

Vísindafólkið hefur sett fram viðmið til nákvæmrar aldursgreiningar með stoð í gagnasöfnum bæði náttúruvísinda og fornleifafræði víðs vegar að úr heiminum. Þar með er komið nytsamlegt tól sem nota má í margvíslegum loftslags- og umhverfisrannsóknum, jarðeðlisfræðum og húmanískum greinum einnig.

Þessi undistöðurannsókn ætti líka að höfða til fleiri en vísindafólks á þessum afmörkuðu fræðasviðum enda gefur rannsóknin sem greinin í Nature segir frá líka mikilvægar upplýsingar sem koma að notum við að meta hættu sem mannlegu samfélagi hér á jörðinni getur stafað af geimveðrum.

Aðalhöfundar greinarinnar í Nature eru Ulf Büntgen sem starfar við landfræðisvið Cambridgeháskóla en einnig við stofnanir í Sviss og Tékklandi, og Lukas Wacker sem starfar við rannsóknastöð í eðlisfræði jónageislunar í Zürich.

Texti: Pétur Halldórsson