Skógarbóndi á Héraði framleiðir lífrænan áburð með hjálp ánamaðka

Guðmundur Aðalsteinsson, skógarbóndi á bænum Árbakka í Hróarstungu á Héraði, hefur einbeitt sér að ræktun ánamaðka, lætur þá éta pappír og breyta í áburð. Hann hefur áhyggjur af því að ánamaðkur sé að hverfa úr íslenskum túnum.

Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður Ríkisútvarpsins á Austurlandi, fjallaði um málið og frétt hans er á þessa leið á vefnum ruv.is:

„Ef maður byrjar að fikta eitthvað svona þá getur maður endað í tómri vitleysu. Þetta er ofvaxið bílskúrshobbý; að framleiða sinn eiginn áburð. Það eru alltaf nýjar víddir hvern einasta dag,“ segir Guðmundur.

Á bænum Árbakka í Hróarstungu er verið að hræra fóður fyrir ánamaðka. Uppskriftin er einföld, blautir pappakassar, vatn og sauðatað. Svo eru tilrauninar með að lauma laufum eða nálum úr skógarbotninum út í hræruna, sérsníða flóruna að ákveðnum plöntum. „Þetta er búið að standa hérna í þrjár vikur og þá sérðu hér sveppi og allskonar lifnað. Til dæmis rotsveppi sem er matur fyrir ánamaðka.“

Maðkarnir vinna sitt verk á sex mánuðum í fiskikörum í upphituðu rými. Að lokum er moldin þurrkuð, áburðurinn tilbúinn og selst ekki síst á golfvelli. Moldin er svo efnarík að það má laga upp af henni fljótand áburð sem kallast ormate.

Guðmundur hefur áhyggjur af mikilli notkun á kemískum áburði og segir hann draga úr fjölgun ánamaðka. Maðkarnir séu nauðsynlegur hlekkur, losi um efni og haldi fúasveppum í skefjum. „Einhverra hluta vegna er ánamaðkur í umferð þarna. Hann er einn hlekkur í þessari keðju sem við köllum líf. Ef að fúasveppur verður ráðandi í túnum þá er ekki hægt að rækta í þeim og það er mikil hætta á því ef við notum allir of mikið of lengi tilbúinn áburð.“ 

Smellið hér til að horfa á sjónvarpsfréttina.