Skógar í aðalhlutverki í sjálfbærri þróun

Á hverju ári er meira en þrettán milljónum hektara af skógi eytt í heiminum. Samanlagt er þetta svæði á stærð við England. Með skógunum hverfa jurta- og dýrategundir sem þrífast í skógunum. 80% af öllum líffræðilegum fjölbreytileika í heiminum er að finna í skógum, með öðrum orðum 4/5 allra lífverutegunda sem lifa á landi. Aldrei hefur meira verið komið undir því að stöðva skógareyðingu og snúa henni upp í að skógar breiðist út á ný.

Ef við ætlum að hamla gegn loftslagsbreytingum verðum við að stækka skóga heimsins aftur. Um 12-18 prósent af útblæstri gróðurhúsalofttegunda eru vegna skógareyðingar. Þegar skógum er eytt losnar út í andrúmsloftið kolefnið sem bundið er í skógunum. Kolefnið binst í trjáviði en líka í rótum, laufi, jarðvegi og öðrum lífverum skógarins. Sú losun sem verður vegna skógareyðingar er næstum jafnmikil og losun frá öllum farartækjum á jörðinni. Ef við stöðvum þessa skógareyðingu höfum við þar með afgreitt rúman fimmtung af losunarvandanum. Og ef við stækkum skógana á ný förum við aftur að binda kolefni í skóglendi.

Nú þekja skógar um 30% af landsvæðum jarðar og í skógunum vaxa yfir 60.000 trjátegundir. Margar þeirra hafa ekki enn verið greindar til tegunda. Um 1,6 milljarðar fátækustu jarðarbúanna treysta á skógana sér til lífsviðurværis. Skógarnir útvega þessu fólki mat, vatn, trjávið til ýmissa nota og lyf. Þar á meðal eru frumbyggjaþjóðir sem tvísýnt er um. Hverfi skógarnir hverfa líka einstæð menningarsamfélög sem eru verðmæti fyrir mannkynið.

Fáar þjóðir hafa jafnmikil tækifæri í skógrækt og Íslendingar. Á láglendi Íslands eru eyðimerkursvæði sem nema samtals um tólf prósentum af öllu landinu. Þar er hægt að rækta skóga sem binda mikið kolefni og gefa í fyllingu tímans af sér dýrmætan trjávið, skapa fjölda fólks atvinnu, bæta búsetuskilyrði í fámennum landshlutum, vernda jarðveg, bæta veðurfarið og hægja á rennsli vatns til sjávar svo fátt eitt sé nefnt.

Ef hver einasti Íslendingur gróðursetur þrjú tré á ári fjölgar trjám í íslenskum skógum um eina milljón árlega. Ein milljón trjáa í skógi skapar ríflega 14 ný ársverk. Til að setja niður eina milljón skógarplantna þurfum við um 330 hektara. Úr einum hektara af fullvöxnum skógi fást tvær milljónir króna fyrir timbrið. Með því að gróðursetja eina milljón skógarplantna á ári leggjum við inn í skógarbankann verðmæti sem verða 660 milljónir króna þegar skógurinn er fullvaxinn eftir 50-80 ár. Eyðimerkur á láglendi Íslands ná yfir ríflega 1,2 milljónir hektara sem sýnir okkur að við eigum gríðarlegt land sem hentar til skógræktar og getum ræktað skóg mjög lengi án þess að sú skógrækt skarist við aðra landnotkun. Ef einungis væri sett niður ein milljón skógarplantna á ári værum við 3.700 ár að þekja illa og ógróin láglendissvæði Íslands af skógi.

Hugsum um tré og skóga á alþjóðlegum degi skóga.

Til hamingju með daginn!

Myndband frá FAO í tilefni af alþjóðlegum degi skóga 2014

  • Forvitnilegir tenglar:

Myndband Skógræktar ríkisins um nytjaskógrækt á beru landi.

http://www.un.org/en/events/forestsday/

http://www.fao.org/in-action/forest-surveys-provide-baseline-data-for-participation-in-redd/en/

http://en.wikipedia.org/wiki/International_Day_of_Forests


 

Myndband Skógræktar ríkisins um nytjaskógrækt á beru landi.