Bæta jarðveg og gefa mat

Samkvæmt ákvörðun sextugasta og áttunda allsherjarþigs Sameinuðu þjóðanna er árið 2016 alþjóðlegt ár belgjurta. Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni FAO hefur verið falið að sjá um skipulagningu ársins og efna til samstarfs við þjóðir heims, stofnanir, samtök og aðra sem málið snertir

Alþjóðlegu ári belgjurta er ætlað að fræða heimsbyggðina um næringargildi þeirra afurða sem margar belgjurtir gefa af sér og hvernig belgjurtir geta stuðlað að sjálfbærari matvælaframleiðslu í heiminum, matvælaöryggi og betra næringarástandi fólks. Með því að halda alþjóðlegt ár belgjurta gefst einstakt tækifæri til að auka þátt belgjurta í matvælakeðju heimsins og stuðla að því að belgjurtaprótín verði meira notuð í matvæli og matargerð vítt og breitt í heiminum. Sömuleiðis vilja menn með þessu ýta undir skiptirækt í landbúnaði til að viðhalda frjósemi ræktarlands auk þess sem bæta þarf stöðu belgjurtanna á matvælamarkaði heimsins.


Hvað eru belgjurtir og hvert er gildi þeirra?

Í raun gefur ekki alveg rétta mynd að tala um ár belgjurta því ekki er átt við allar belgjurtir, einungis þær sem gefa ætar baunir eða fræ og ár Sameinuðu þjóðanna er helgað þeim nytjaplöntum af belgjurtaætt sem á sér ekki sérstakt orð á íslensku en ensku kallast pulses. Hér er átt við nytjaplöntur sem helst eru ræktaðar til að gefa þurrar baunir eða fræ frekar en baunir eða ertur sem borðaðar eru ferskar eða plöntur sem ræktaðar eru til að framleiða matarolíu. (Sjá skilgreiningu FAO, pulses and derived products.)

Belgjurtaættin er mjög stór ætt innan grasafræðinnar og einnig er talað um ertublóm eða ertublómaætt. Til þessarar ættar teljast nokkrar deildir, fjölmargar ættkvíslir og enn fleiri ættkvíslir eins og fjallað er um í Belgjurtabókinni eftir Sigurð Arnarson sem kom út 2014.

Belgjurtir sem ræktaðar eru til að gefa baunir og fræ til manneldis eru einærar nytjaplöntur. Ávextir þeirra þroskast í belgjum og eru ávextirnir frá einum og upp í tólf í hverjum belg, fjölbreytilegir að stærð, lögun og lit. Auk þess að vera til manneldis eru slíkar belgjurtir ræktaðar til til fóðurframleiðslu fyrir skepnur. 

Afurðir belgjurta eins og linsur, gulertur, baunir, gular baunir, kjúklingabaunir og þess háttar eru nauðsynlegur hluti af heilbrigðum fæðuhring fólks. Þær gefa mikilvæg plöntuprótín og aminósýrur og mælt er með því að fólk borði þessar afurðir reglulega til að tryggja heilbrigða samsetningu næringarefna, meðal annars til þess að hamla gegn ofþyngd, vernda fólk gegn ólæknandi sjúkdómum eins og sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini. Belgjurtaprótín geta komið í stað kjöts og ræktun belgjurta hefur umtalsvert minni umhverfisáhrif en kjötframleiðsla. Og afurðir belgjurtanna eru líka mikilvæg uppspretta prótína fyrir skepnur.


Jarðvegsbætandi áhrif belgjurta

Síðast en ekki síst kemur það sem ætti að ylja öllu ræktunarfólki um hjartaræturnar. Belgjurtir lifa í samfélagi við örverur sem hjálpa þeim að binda nitur úr andrúmsloftinu sem plönturnar nýta sér til vaxtar. Þessi starfsemi belgjurtanna eykur niturmagn í vistkerfinu og nýtist því öðrum plöntum, byggir upp jarðveg, hamlar gegn rýrnun og eyðingu jarðvegsins. Belgjurtir gefa því bæði mat og fóður og bæta umhverfið. Hvað er hægt að biðja um betra?

Belgjurtir hafa verið ræktaðar að einhverju marki til fóðurframleiðslu á Íslandi. Einkum er hugað að slíku í lífrænum búskap þar sem skiptiræktun er snar þáttur og notkun tilbúins áburðar bönnuð. Belgjurtir eins og gráertur, fóðurflækja og fóðurlúpína eru gott grænfóður fyrir skepnur. Áhugafólk um matjurtarækt hefur reynt fyrir sér með ræktun bauna eða ertna í görðum, oft með góðum árangri. Ef þess er gætt að bauna- eða ertuplöntur hafi eitthvað til að klifra í getur uppskeran orðið töluverð.

Sú belgjurt sem mestu hefur skipt í ræktun á Íslandi er hins vegar ekki mat- eða fóðurjurt. Það er alaskalúpínan, sú umdeilda jurt, sem hefur ótvíræða yfirburði yfir aðrar jurtir í baráttu Íslendinga við gróður- og jarðvegseyðingu. Lúpínan auðveldar til dæmis mjög skógrækt á uppblásnu landi. Víða vex nú skógur í kjölfar uppgræðslu lúpínunnar.

Gleðilegt ár belgjurta!

Texti: Pétur Halldórsson