Gömul tré öðlast þegnrétt vegna sögu sinnar

Í Morgunblaðinu í dag, 5. júní, er áfram fjallað um gömul tré með vísun í 106 ára gamlan silfurreyni við Grettisgötu í Reykjavík sem til stendur að fella vegna byggingaframkvæmda. Agnes Bragadóttir skrifar fréttaskýringu þar sem meðal annars er rætt við Brynjólf Jónsson, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands. Hann segir að allt yrði brjálað í Berlín ef til stæði að fella svona tré þar.

Í greininni rekur Agnes málavöxtu undanfarinna daga

Fátt hefur verið meira rætt í Reykjavík undanfarna daga en áformin um að fella 106 ára gamlan silfurreyni við Grettisgötu 17 og flytja húsið nær götunni til þess að rýma fyrir hóteli. Það var Ylfa Dögg Árnadóttir, kornungur íbúi við Grettisgötu 13, sem vakti athygli á málinu með því að senda Reykjavíkurborg harðort bréf þar sem áformunum var mótmælt og hvatt til þess að horfið væri frá þeim.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og nú hafa þúsundir manna skrifað undir mótmæli gegn áformunum.
Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu undanfarna daga fór afskaplega lítið fyrir kynningu á þessum áformum, sem fylgja breyttu deiliskipulagi. Þau voru auglýst í einum fjölmiðli, Fréttablaðinu, á Þorláksmessu í fyrra og fóru því væntanlega framhjá þorra manna.

Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, sagði á mbl.is í fyrradag að reglur borgarinnar um að það þyrfti sérstakt leyfí til að fella tré eldri en sextíu ára eða hærri en átta metra giltu ekki ef deiliskipulag hefði verið samþykkt.
Aðeins tvö tré í borginni njóta sérstakrar hverfisverndar, sem er helsta tækið til að friða tré í Reykjavík. Það eru silfurreynirinn í Fógetagarðinum og hlynur í sama garði.

Allir yrðu brjálaðir í Berlín

Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags íslands, er ómyrkur í máli þegar hann er spurður álits á áformunum um að fella silfurreyninn við Grettisgötu. „Eg er nýkominn frá Berlín. Engum myndi detta þetta í hug þar. Ef áformað væri að fella tré á við silfurreyninn við Grettisgötu yrðu allir brjálaðir í Berlín," segir Brynjólfur.
Brynjólfur segir ástæður þess að tré eru friðuð m.a. þær að í gegnum tíðina hafi þau öðlast einhvern þegnrétt, m.a. vegna sögu sinnar, eða þá vegna þess að tréð sem um ræðir sé markvert vegna líffræðinnar, t.d. langlíft og sérstök tegund. Þar að auki geti pólitík og viðhorf hvers tíma haft áhrif á það hvort tré eru friðuð eða ekki, sem geti verið mismunandi eftir tíðaranda hverju sinni.

„Oft hafa tré þurft að víkja, en það eru sem betur fer einhver önnur gildi í þjóðfélaginu en byggingar," segir Brynjólfur og rifjar upp þegar álmur í Túngötunni var gerður að tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands á tíunda áratug síðustu aldar.“

„Þetta gerðum við nokkrum árum áður en farið var að byggja heilmikið hótel við Túngötu. Þegar þessi merkilegi álmur var kominn með þennan status var tekið tillit til trésins, sem stendur þarna enn, og byggingarnar voru í raun og veru hannaðar í kringum það.“

Staðfestuleysi í borginni

„Ég held að borgarkerfið sé magnlaust hvað varðar trjágróður og stefnufestu í þessum málum. Ef einhverjum borgarstjóra dettur í hug að fella aspir, þá er bara rokið í að fella þær. Hér þarf að horfa til áratuga en ekki hlaupa upp til handa og fóta og fórna trjágróðrinum vegna þess að einhver verktaki kemur og segist ætla að byggja hótel. Það er hálfgrátlegt að horfa upp á það hvað mikið þekkingar- og staðfestuleysi er í þessum efnum hér í borginni."

Með fréttaskýringunni fylgir klausa þar sem rætt er um nokkrar ástæður sem geta verið fyrir því að einstök tré öðlast sérstaklega mikið gildi fyrir samfélagið.  Þess er t.d. getið að elsta tré í Reykjavík sé silfurreynirinn sem Schierbeck landlæknir gróðursetti árið 1884. Haft er eftir Brynjólfi Jónssyni að silfurreynir geti orðið 200 ára gamall og því geti tréð við Grettisgötu átt öld eftir ólifaða ef það verður látið í friði.