Asparskógar eru bjartir og gjarnan með ríkulegum og fjölbreyttum undirgróðri. Ljósmynd: Pétur Halldó…
Asparskógar eru bjartir og gjarnan með ríkulegum og fjölbreyttum undirgróðri. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

(fræðiheiti: Populus balsamifera ssp. trichocarpa)

Til aspa teljast hartnær þrjátíu tegundir sumargrænna lauftrjáa af víðiætt sem vaxa á norðurhveli jarðar. Tvær þeirra þekkjum við Íslendingar best, blæöspina sem vex villt á nokkrum stöðum hérlendis og alaskaösp sem er algengt tré í þéttbýli en líka ein mikilvægasta nytjatrjátegund okkar Íslendinga. Þegar ösp er nefnd í daglegu tali er í seinni tíð yfirleitt átt við alaskaösp.

Alaskaösp er mjög stórt tré og nálgast hæstu einstaklingar tegundarinnar hérlendis nú þrjátíu metra hæð. Oftast eru trén beinvaxin en allmikill munur er milli klóna á lagi krónunnar. Fjölbreytnin er allt frá mjósleginni yfir í mjög breiða og jafnvel egglaga krónu. Öspin vex yfirleitt hratt og vel en þarf góð skilyrði og frjósaman jarðveg til að fullur vaxtarþróttur komi fram. Þetta er ljóselsk tegund sem þarf ferskan jarðvegsraka til að ná góðum vexti. Ef hún er gróðursett í rýru mólendi vex hún hægt eða ekki.

Tegundin hefur verið reynd um allt land og reynslan sýnir að aspir geta vaxið í öllum landshlutum en gott er að huga vel að klónavali á hverju svæði fyrir sig. Styrkleikar tegundarinnar eru einkum hraður vöxturinn sem áður er nefndur og til eru klónar með gott frostþol eða saltþol. Almennt þolir öspin líka vel að standa á vindasömum svæðum. Fólk sem þekkir alaskaösp þekkir líka ilminn af henni sem gleður, ekki síst á vorin þegar hún vaknar af vetrardvala og laufgast.

Komið hefur í ljós að viður alaskaaspar er góður smíðaviður og hefur komið vel út í styrkleikaprófunum. Ljósmynd: Pétur HalldórssonStyrkleiki alaskaaspar er líka gæðaviðurinn sem hún gefur, öfugt við það sem oft hefur verið haldið fram. Lengi vel trúðu því margir að asparviður væri ekki til margra hluta nytsamlegur en nú hefur komið í ljós að viður íslenskrar alaskaaspar er fyrirtaks smíðaviður. Brotþol planka og límtrés úr íslenskri ösp hefur verið rannsakað vísindalega og þar stendur asparviður öðrum tegundum íslensks nytjaviðar fyllilega á sporði. Fyrsta húsið sem eingöngu var smíðað úr íslensku timbri er að miklu leyti gert af asparviði og stendur í Vallanesi á Héraði. Alaskaösp er timburtré.

Veikleikar alaskaaspar felast einkum í ásókn tveggja skaðvalda sem herjað hafa á tegundina hérlendis. Annars vegar er ryðsveppurinn asparryð sem leggst þungt á suma asparklóna. Til að vinna gegn tjóni af völdum asparryðs hefur Skógræktin unnið að kynbótum á ösp og leitað að ryðþolnum asparklónum sem einnig eru beinvaxnir og með mikinn vaxtarþrótt. Sú leit hefur borið árangur og má búast við minnkandi tjóni af völdum asparryðs á komandi tíð. Lerki er millihýsill ryðsveppsins og því er tjónið mest þar sem lerki og ösp vaxa á sama svæði. Hinn skaðvaldurinn er asparglytta, litrík og falleg bjöllutegund sem leggst á blöð asparinnar, en þó reyndar mest á gulvíði. Bæði bjallan sjálf og lirfa hennar éta blöðin og skaðinn getur því orðið mikill en þó mestur á ungum trjám því kvikindið hættir sér ekki ofar frá jörðu en í um það bil góða mannhæð. Lítil reynsla er af því enn sem komið er að verjast asparglyttu en hún er þó ekki talin ógna öspinni sem nytjatrjátegund.

Ásamt sitkagreni er alaskaösp hraðvaxnasta trjátegund sem notuð er í skógrækt á Íslandi en hefur þann eiginleika fram yfir grenið að vaxa hratt frá upphafi. Í þéttbýli getur öspin hentað vel ef hún fær djúpan og góðan jarðveg og nægt rými, en á síður við þröngar aðstæður í litlum görðum. Í dreifbýli er öspin besta tréð í skjólbeltarækt, mjög góð í nytjaskógrækt á frjósömu landi, fín í landgræðsluskógrækt, einkum með hjálp lúpínu, og alls staðar ein gagnlegasta tegundin til að binda CO2 úr andrúmsloftinu.

#trjátegundir

Texti: Pétur Halldórsson og Þröstur Eysteinsson