Mynd: Wikimedia Commons/Steffen Heinz.
Mynd: Wikimedia Commons/Steffen Heinz.

Trjáklippingar, berjarækt, tálgun, húsgagnasmíði, Grænir skógar 1 ...

Námskeiðið Trjá- og runnaklippingar I er meðal þeirra sem fram undan eru hjá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands. Þetta námskeið er haldið í samstarfi við IÐUNA fræðslusetur og er fyrir allt áhugafólk um garðyrkju sem vill kynna sér hvernig standa skuli að klippingu trjáa og runna.

Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt. Nemendur kynnast helstu vélum og verkfærum sem notuð eru til trjá- og runnaklippinga. Fjallað verður um trjáklippingar og hvernig meta skal ástand trjágróðurs. Einnig er fjallað um almennar runnaklippingar og limgerðisklippingar. Verklegar æfingar í trjáklippingum.

Ágústa Erlingsdóttir, skrúðgarðyrkjumeistari og brautarstjóri skrúðgarðyrkjubrautar við LbhÍ, kennir. Nemendur eru beðnir að taka með sér þau verkfæri sem þeir eiga og vinnufatnað í samræmi við veður í verklega tíma. Námskeiðið er átta kennslustundir og fer fram kl. 9-15.30 laugardaginn 17. mars hjá Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi. Námskeiðsgjald er 19.500 krónur og er kaffi, hádegismatur og gögn innifalið í verði.

Sama dag og á sama stað verður líka námskeið í ræktun berjarunna. Daginn áður hefst námskeiðið Húsgagnagerð úr skógarefni I að Snæfoksstöðum í Grímsnesi. Í apríl verða haldin námskeiðin Tálgun I - ferskar viðarnytjar og einnig Húsgagnagerð úr skógarefni II en undir lok mánaðarins hefst námskeiðaröðin Grænni skógar I á Suður- og Vesturlandi. Ástæða er að vekja athygli á öllum þessum námskeiðum og benda fólki á skráningarsíðuna á vef Endurmenntunar LbhÍ:

Texti: Pétur Halldórsson