Í síðustu viku var greint frá fyrstu niðurstöðum úr rannóknaverkefni Skógræktarinnar og Náttúrufræðistofnunar, SKÓGVIST, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins!

Þar greindi frá að í fuglatalningum sem gerðar voru síðast liðið vor hafi spörfuglinn glókollur reynst þriðji algengasti skógarfugl í lerkiskógum á Héraði.  Að sögn Ólafs K. Nielsen, fuglafræðings N.Í., barst talsverður fjöldi glókolla hingað til lands haustið 1995, en
fyrsta varp hans var ekki staðfest fyrr en 1999. 

Á aðeins örfáum árum hefur glókollur orðið algengari en auðnutittlingur og músarrindill.  Að sögn Ólafs hefur þessi nýja íslenska fuglategund fest sig í sessi í íslenskri náttúru, og hefur þar með ýtt músarindlinum úr heiðurssætinu að titlast minnsti fugl landsins. Glókollurinn er staðfugl hér þrátt fyrir smæð sína og að hann sé skordýraæta, en hann finnur sér bæði skjól og fæðu í barrskógum.

Þessar niðurstöður og margt fleira fróðlegt er að finna í greininni ?Áhrif skógræktar á lífríki? eftir þau Ásrúnu Elmarsdóttur, Bjarna Diðrik Sigurðsson, Guðmund Halldórsson, Ólaf K. Nielsen og Borgþór Magnússon, sem birt verður í Riti Ráðunautafundar 2003 í byrjun febrúar. 

Á myndinni er áðurnefndur Ólafur að dansa við súlu á Reykjanesi, en "súludans" ku vera leyfilegur á þeim stöðum.