Birkikemba hefur verið að breiðast út um landið undanfarin ár. Lirfan fer inn í laufblaðið sem skorp…
Birkikemba hefur verið að breiðast út um landið undanfarin ár. Lirfan fer inn í laufblaðið sem skorpnar smám saman upp og geta trén orðið brún að sjá þegar mikið er um kvikindið. Mynd: Pétur Halldórsson.

Guðmundur Halldórsson flytur erindi á Hrafnaþingi

Guðmundur, Halldórsson rannsóknastjóri Landgræðslu ríkisins, flytur í dag erindi á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Erindið kallar hann „Áhrif loftslagsbreytinga á smádýr í skógrækt og landgræðslu“.

Í erindinu verður fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á smádýr sem lifa á trjám og öðrum gróðri sem notaður er í landgræðslu og skógrækt hér á landi. Rætt verður um landnám nýrra tegunda sem lifa á trjágróðri og breytingar á skaðsemi og faröldrum tegunda sem fyrir voru. Að lokum verður reynt að svara spurningunni um hver sé líkleg framtíðarþróun á þessu sviði og hvaða möguleikar séu á að bregðast við því.

Hrafnaþing er heiti á röð fræðsluerinda sem að jafnaði eru á dagskrá Náttúrufræðistofnunar aðra hverja viku yfir vetrarmánuðina. Þar kynna starfsmenn stofnunarinnar rannsóknir sínar og gestafyrirlesurum er boðið að flytja erindi. Hrafnaþing er haldið í Krummasölum á þriðju hæð í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ.

Erindi Guðmundar Halldórssonar í dag hefst kl. 15.15 og stendur til kl. 16. Fræðsluerindi á Hrafnaþingi eru opin öllum og hægt er að nálgast upptökur af flestum erindum á Hrafnaþingi frá og með árinu 2011 á svæði Náttúrufræðistofnunar Íslands á Youtube.