Valgerður Jónsdóttir sýnir grunnstofn með frísklegum ágræðslusprota á Skógardegi Norðurlands fyrr í …
Valgerður Jónsdóttir sýnir grunnstofn með frísklegum ágræðslusprota á Skógardegi Norðurlands fyrr í sumar.

Lifandi eintök af öllum klónum sem teknir voru til ágræðslu

Svo virðist sem vel hafi tekist til við ágræðslu fjallaþins sem fram fór í fræhúsinu á Vöglum í Fnjóskadal í vor. Um sextíu prósent ágræðslusprotanna eru lifandi og í safninu eru lifandi eintök af öllum þeim klónum sem ágræddir voru. Safnið lofar því góðu sem grunnur að fræframleiðslu fjallaþins til jólatrjáaræktar.

Eins og sagt var frá hér á skogur.is 19. maí var fenginn til landsins danskur sérfræðingur í ágræðslu sem hefur mikla reynslu af ágræðslu þins. Hann stýrði verkinu þegar 258 sprotar af úrvalstrjám voru græddir á jafnmarga grunnstofna fimmtudaginn 14. maí í vor. Brynjar Skúlason, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, og doktorsnemi í skógerfðafræði, stýrir kynbótum fjallaþins til jólatrjáaræktar. Í lauslegri úttekt sem hann gerði í síðustu viku á ágræðsluplöntunum kom í ljós að árangurinn nemur um 60%.

Alls eru ágræðslusprotar lifandi á 155 trjám af þeim 258 sem grætt var á í vor en Brynjar segir hugsanlegt að einhver svolítil afföll geti orðið enn. Grætt var á tvenns konar grunnstofna, misstóra, og útkoman úr þeim minni er greinilega mun betri. Stærri stofnarnir voru tré sem áður hafði verið reynt að græða á en ekki heppnast. Ljóst er að enginn þeirra 42 klóna sem teknir vor til ágræðslu brást alveg. Því er til a.m.k. einn ágræddur einstaklingur í fræhúsinu á Vöglum af 42 klónum fjallaþins. Þar af eru 10 klónar bláleitir suðlægir en flestir hinna að mestu grænir, frá ýmsum svæðum.

Næsta skrefið í þessu kynbótastarfi er að fylgjast með framvindu þessara ágræðsluplantna og sjá hvaða klónar blómstra. Brynjar segir að leggja þurfi áherslu á að taka frjóa klóna sem hraðast í fræframleiðslu innandyra jafnvel að fjölga þeim frekar með ágræðslu. Þeir klónar sem reynist verða seinni til blómgunar verði settir í geymslu utandyra og hafðir til taks ef þeir sýna blómgun eða einhverja eiginleika sem síðar verður þörf fyrir í fræframleiðslu eða kynbótum.

Meiningin er að framleiða úrvalsfræ af fjallaþin til jólatrjáaræktar með svipuðum hætti og lerkiblendingurinn 'Hrymur' er nú framleiddur á Vöglum. Vonast er til að þetta gefi yrki af fjallaþin sem bæði spjari sig í ræktun hérlendis og gefi fallega löguð og frísk jólatré. Þegar fram líða stundir þarf því að huga að rými í gróðurhúsi þar sem þessar kynbætur verði stundaðar áfram og fræræktinni stýrt. Þá þarf einnig að finna góðan stað utan dyra fyrir klónasafn sem mætti byggja upp þannig að það nýttist sem frægarður einnig. Brynjar segir æskilegt að staðsetja slíkt safn á veðursælum stað til að tryggja fræþroska og fjarri öðrum fjallaþin til að takmarka erfðamengun frá „sauðsvörtum almúga-fjallaþin“ eins og hann orðar það.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson