Opinn kynningarfundur 1. desember

Félag skógarbænda á Austurlandi stendur fyrir opnum kynningarfundi þriðjudaginn 1. desember kl. 20 á Hótel Héraði Egilsstöðum. Þar verður rætt um stofnun afurðamiðastöðvar viðarafurða á Austurlandi. Fundurinn er öllum opinn.

Þetta kemur fram á vefnum skogarbondi.is. Félag skógarbænda á Austurlandi, í samstarfi við Landssamtök skógareigenda, Skógrækt ríkisins og Héraðs- og Austurlandsskóga, setti í ársbyrjun 2014 af stað vinnu við að kanna fýsileika þess að stofna til afurðamiðstöðvar viðarafurða á Austurlandi. Markmiðið með slíkri afurðarmiðstöð væri að auka virði skógarnytja, efla áframvinnslu hráefnis, vöruþróun og -framboð og hámarka arðsemi skógræktar sem atvinnugreinar. Félagið samdi við Austurbrú um stjórn verkefnisins.

Afurðamiðstöð viðarafurða á Austurlandi yrði sú fyrsta sinnar tegundar, ekki bara á Austurlandi, heldur á landinu öllu. Með stofnun hennar gæfist einstakt tækifæri til að byggja upp fjölbreytta atvinnu- og rannsóknarstarfsemi í kringum skógrækt. Góð reynsla er fyrir rekstri slíkra afurðamiðstöðva á Norðurlöndum. Með því að koma á fót afurðamiðstöð viðarafurða á Austurlandi, væri stigið mikilvægt skref í því að gera skógrækt á atvinnusvæðinu að þeirri atvinnugrein sem hún hefur fulla burði til að vera.

Það er stefna Félags skógarbænda á Austurlandi, líkt og Landssamtaka skógareigenda, að efla nytjaskógrækt og tryggja jafnt og öruggt framboð skógarafurða. Lögð er áhersla á markaðsdrifna skógrækt og að arðsemin verði sem mest í heimabyggð. Næg eftirspurn er eftir við innanlands og verður fyrirsjáanlega áfram. Innfluttur viður er dýr og hefur verið eftir að gengi krónunar féll, þó svo að heimsmarkaðsverð sé enn í lægð eftir síðustu efnahagskreppu. Allar forsendur eru því fyrir hendi að þessi atvinnugrein eigi sér arðvænlega framtíð.

Á vegum verkefnisins voru unnar nokkrar skýrslur sem verða til kynningar á fundinum. Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins, greinir frá niðurstöðum viðarmagnsúttektar, Birgir Már Daníelsson, Rannsóknarmiðstöð um markaðs- og þjónustufræði við Háskóla Íslands, fer yfir markaðsgreiningu, Lára Vilbergsdóttir, Austurbrú, fjallar um fjölþætta nýtingu viðarafurða og Karl Lauritzson viðskiptafræðingur fer yfir viðskiptaáætlun og möguleg rekstrarform.

Fjölmargir komu að verkefninu, ýmist með fjár- eða vinnuframlagi. Auk þeirra sem þegar hafa verið nefndir, naut verkefnið stuðnings Skógræktarfélags Austurlands, Fljótsdalshrepps, Fljótsdalshéraðs, Vaxtasamnings Austurlands, Átaks til atvinnusköpunar, Framleiðnisjóðs og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Nánari upplýsingar veitir Jóhann F. Þórhallsson (brekkugerdi@fljotsdalur), Félagi skógræktarbænda á Austurlandi í síma 864 9080.