Úr fræhöll Skógræktarinnar á Vöglum þar sem 'Hrymur' varð til og fræframleiðsla á blendingnum fer fr…
Úr fræhöll Skógræktarinnar á Vöglum þar sem 'Hrymur' varð til og fræframleiðsla á blendingnum fer fram. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Morgunblaðið greinir frá því að hugmyndir séu uppi um það í Dalabyggð að koma þar upp aðstöðu og afla þekkingar til að koma upp fjölgunarstöð fyrir kynbætta lerkiblendinginn 'Hrym'. Verkefnið er á frumstigi en ætti að skýrast næsta hálfa árið hvort af því getur orðið.

Frétt MorgunblaðsinsBlaðið ræðir við Franz Jezorsky, forsvarsmann verkefnisins, sem bendir á að mikil spurn sé eftir fræi af 'Hrymi'. Hugmyndin er að komið yrði upp „fræhöll“ í Dölum svipaðri þeirri sem Skógræktin rekur í Vaglaskógi. Þar fór einmitt fram það kynbótastarf sem leiddi til þess að til varð lerkiblendingurinn 'Hrymur' sem er afurð víxlunar á úrvalstrjám evrópulerkis og rússalerkis. Blendingurinn hefur svokallaðan blendingsþrótt, hefur erft kosti beggja foreldra sinna en síður gallana, sem þýðir að hann bæði vex vel og þrífst við erfiðar aðstæður hérlendis, meðal annars nærri ströndu á Suður- og Vesturlandi.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins yrði aðstaðan væntanlega byggð upp í Búðardal og myndi þar með styðja þar við brothætta byggð. Verkefnishugmyndin fékk einmitt 400 þúsund króna styrk nýverið úr frumkvæði Dalaauðs til að vinna það áfram. Skógrækt er eitt af því sem nokkrir áhugamenn hafa unnið að til að reyna að styðja við atvinnulíf í Dalabyggð. Þar sé mikill og vaxandi áhugi á skógrækt og aðstæður góðar. Haft er eftir Franz að hugmyndin gangi út á að kanna hvort hagkvæmt geti verið að reisa fræhöll þar sem Hrymsfræ yrðu framleidd. Verkefnið sé samstarfsverkefni margra og nefnir Franz sérstaklega Jakob K. Kristjánsson skógarbónda og Sigurbjörn Einarsson sem einnig ræktar skóg í Dalabyggð.

Og hópurinn ætlar ekki að einskorða sig við fræframleiðslu heldur vill einnig nýta sér þá þekkingu sem byggð hefur verið upp hjá Skógræktinni undanfarin misseri að rækta Hrym með stiklingum. Með því er tækifæri til að auka enn framboð á Hrymi til nýskógræktar en Franz bendir á að mikil spurn sé eftir þessum blendingi, bæði vegna þess hversu vel hann hentar til skógræktar á Íslandi og vegna mikils vaxtar og kolefnisbindingar, sem sé á við alaskaösp, allt að 24-26 tonn af CO2 á hektara á ári.

Álitleg staðsetning fyrir fræhöll er fundin á athafnasvæði í Búðardal, segir einnig í frétt Morgunblaðsins, og í framhaldinu gæti risið gróðrarstöð til að rækta tré af því fræi sem þarna yrði framleitt. Hópurinn sem að þessu stendur segir Skógræktina hafa heitið liðsinni sínu og vill efna til samstarfs við Landbúnaðarháskóla Íslands en einnig aðila sem hugi að stórhuga skógræktarverkefnum og vilji fjármagna uppbyggingu sem þessa. „Við trúum því að þetta sé gott verkefni. Það styður atvinnuuppbyggingu í brothættri byggð og ef vel tekst til hjálpar það skógrækt í Dalabyggð og á landinu öllu. Auk beinna starfa skapast afleidd störf,“ segir Franz í samtali við Morgunblaðið. Hann gerir ráð fyrir að það skýrist á næsta hálfa árinu hvort af því geti orðið.

Texti: Pétur Halldórsson