(mynd: Edda S. Oddsdóttir)
(mynd: Edda S. Oddsdóttir)

Fræðsla, skemmtun og hressing sálar og líkama

Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá fagnar 50 ára afmæli sínu í sumar. Hinn 15. ágúst 1967 var hún formlega stofnuð og það gerði hans hátign, Haraldur V. Noregskonungur, sem þá var krónprins Noregs.

Af þessu tilefni efnir Rannsóknastöðin til fjölskylduhátíðar á Mógilsá sunnudaginn 20. ágúst kl. 14-17. Þar verður starf stöðvarinnar kynnt og boðið upp á skógarveitingar. Nánari dagskrá verður birt hér á skogur.is og í fjölmiðlum þegar nær dregur.

Hugmyndin er að gestir fái á líflegan hátt að kynnast helstu þáttum í starfsemi stöðvarinnar svo sem skógmælingum, skordýrarannsóknum, vatnsspennumælingum, árhringjaskoðun, sjúkdómum, grisjunartilraunum, landupplýsingakerfum og þannig mætti áfram telja. Aldrei er að vita nema fólk fái að sjá rætur ofan í jörðinni með sérstakri myndavél og þá er ætlunin að opna trjásafnið á Mógilsá formlega. Gróðursettar verða fimmtíu eikur í tilefni afmælisins og sýnistöðvar verða þar sem ýmsir þættir skógræktarrannsókna verða útskýrðir á skilmerkilegan hátt.

Að sjálfsögðu verður kveikt upp og hitað ketilkaffi, steiktar lummur bakað pinnabrauð og fleira freistandi eins og á skógarhátíð sæmir.

Texti: Pétur Halldórsson