Þessi nýuppgötvaða tegund skyld apaþrautartrjám uppgötvaðist þegar vísindafólk tók eftir því að sum …
Þessi nýuppgötvaða tegund skyld apaþrautartrjám uppgötvaðist þegar vísindafólk tók eftir því að sum trén í skóginum virtust líta svolítið öðruvísi út en önnur tré sömu ættkvíslar á svæðinu. Erfðarannsóknir sýna að þau eru nægilega frábrugðin til að teljast sjálfstæð tegund. (Mynd af vef Deadline News.)

Fyrsti fundur nýrrar trjátegundar í 47 ár

Eftir sautján ára rannsóknarstarf á Nýju-Kaledóníu í suðvestanverðu Kyrrahafi hafa skoskir vísindamenn uppgötvað nýja trjátegund sem þó var fyrir framan nefið á þeim allan tímann. Tegundin er af sömu ættkvísl og apaþrautartré, Araucaria, sem einnig hafa verið kölluð apahrellir á íslensku. Hin nýuppgötvuðu tré eru hluti af mjög sérstæðri flóru Nýju-Kaledóníu sem nú er ógnað með stórfelldum áformum um nikkelvinnslu.

Vísindafólk konunglega grasagarðsins í Edinborg hefur um árabil stundað rannsóknir á trjám þessarar ættkvíslar á eynni Nýju-Kaledóníu í sunnanverðu Kyrrahafi austur af Ástralíu. Nýlega uppgötvuðu fræðingarnir að meðal trjánna sem til rannsóknar voru leyndist áður óþekkt tegund, fyrsta nýja trjátegundin sem uppgötvuð hefur verið í 47 ár.

Tréð, sem ekki hefur hlotið viðurkennt fræðiheiti enn sem komið er, hafði leynst fyrir augum vísindafólksins allan þennan tíma. Og kannski var þessi uppgötvun hundaheppni. Fundarstaðurinn er á svæði sem til stóð að ryðja til að opna nýja nikkelnámu.

Þessi nýja tegund Araucaria-ættkvíslar er talin hafa þrifist á jörðinni í um 200 milljónir ára. Þetta er því tegund sem óx meðan risaeðlurnar voru á dögum. Hún uppgötvaðist þegar vísindafólkið kom auga á nokkur tré sem stóðu saman og virtust eitthvað frábrugðin öðrum. Þegar betur var að gáð reyndust laufin á þessum trjám vera stærri en annarra og lögun könglanna önnur.

Með ítarlegum erfðarannsóknum komst vísindafólkið að því að þessi tré væru nægilega ólík öðrum Araucaria-trjám á Nýju-Kaledóníu til að þau skyldi telja til nýrrar tegundar. Grein um efnið hefur nú verið gefin út í American Journal of Botany með enska titlinum Hidden in plain view: Cryptic diversity in the emblematic Araucaria of New Caledonia. Það útleggst eitthvað á þessa leið: Falin um hábjartan dag: Leyndardómsfull fjölbreytni meðal hinna einkennandi Araucaria-trjáa á Nýju-Kaledóníu.

Prófessorinn Philip Thomas er margreyndur vísindamaður og tók þátt í leiðangrinum sem fann tegundina nýju. Fréttavefurinn Deadline News í Edinborg, sem fjallar um málið, hefur eftir honum að Araucaria-tré á Nýju-Kaledóníu þrífist við mjög erfiðar aðstæður og hafi þykk lauf og leðurkennd. Hann segir mjög gefandi að hafa uppgötvað nýja tegund eftir öll þessi ár og fundurinn hafi komið mjög á óvart enda hafi verið talið að þekking manna á apaþrautar­trjám og öðrum tegundum ættkvíslarinnar væri allgóð. Enn sé töluverð vinna eftir við að rannsaka erfðafræði hinnar nýju tegundar en megináhersla sé nú lögð á verndun hennar á eyjunni.

Margir þekkja hið sérstæða tré Araucaria araucana sem er ein tegund apaþrautartrjáa, talin meðal elstu trjátegunda sem enn þrífast á jörðinni. En hún er einnig ein af þeim sem eru í útrýmingarhættu í heimkynnum sínum. Tegundin vex villt í Síle og Argentínu. Mynd: Wikimedia Commons/Rokfaith


Svo óheppilega vill til að útbreiðslusvæði hinnar nýju tegundar virðist vera bundið við Goro-hásléttuna þar sem heimamenn eru einmitt að hefja vinnslu í stærstu nikkelnámu sem sögur fara þar af. Philp Thomas segir að nú verði skipuleggjendur að sýna mun meiri aðgæslu og taka tilllit til hinnar nýuppgötvuðu trjátegundar.

Talið er að enskt heiti hinna svokölluðu apaþrautartrjáa, Monkey puzzle tree, hafi orðið til í Bretlandi um miðja nítjándu öld þegar menn hófu fyrst tilraunir við ræktun þeirra þar. Kunnur málafærslumaður, Charles Austin, er sagður hafa litið á tréð og sagt eitthvað á þá leið að það yrði þraut fyrir apa að klifra í þessu („It would puzzle a monkey to climb that“). Hvað rétt væri að kalla nýuppgötvuðu tegundina á íslensku er ekki ljóst að svo stöddu en hugmyndaríkt áhugafólk um tré á e.t.v. hugmyndir í kollinum að því.

Hvað sem því líður segir Pete Hollingsworth, prófessor og rannsóknarstjóri hjá konunglega grasagarðinum í Edin­borg, í samtali við Deadline að miklar ógnir steðji að hinni nýfundnu trjátegund. Á Nýju-Kaledóníu þrífist merkileg flóra með ýmsum ein­stök­um tegundum sem hvergi sé að finna annars staðar á jörðinni. En þessi líffjölbreytni sé í mikilli hættu. Nýja-Kaledónía sé ein mikilvægasta uppspretta nikkels á jörðinni eins og fjallað sé um í grein vísinda­mann­anna. Mögulega megi líta svo á að þessir ættingjar apaþrautartrjánna séu mest heillandi af öllum tegundunum í hinni mjög svo heillandi flóru Nýju-Kaledóníu.

Aðalheimkynni hinna eiginlegu apaþrautartrjáa eru annars í sunnanverðum Andesfjöllum Síle og Argentínu en þau hafa verið tekin til ræktunar og vaxa í görðum um allan heim, meira að segja á Íslandi. Þetta eru langlíf, sígræn tré og geta orðið allt að 50 metrar á hæð þótt það geti tekið langan tíma. Stinn og leðurkennd laufin eru oddhvöss, standa þétt í hvirfingum á trjágreinum og stofni og vísa upp.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson