Lesið í skóginn með námskeið á Sauðárkróki

Um helgina hélt Skógræktin námskeiðið Lesið í skóginn - tálgað í tré á Sauðárkróki í samvinnu við Farskóla Norðurlands vestra sem er með höfuðstöðvar sínar á Sauðárkróki. Þar kynntust þátttakendur því að tálga í ferskan við með ólíkum hnífum og öxum og lesa í form og eiginleika einstakra viðartegunda. Unnið var með skeftingu ýmiss konar áhalda, lært að kljúfa við, tálga smjörhnífa, steikarspaða, ausur og sleifar til heimilisnota.

Notaður var viður úr birki, lerki, gljávíði, viðju, ösp, stafafuru, aski, körfuvíði, blágreni og sitkagreni. Úr þessu lærðu þátttakendur að vinna krúsir, skóhorn og ýmiss konar snaga til nota innanhúss eða utan sem blómahengi, fatahengi eða fyrir verkfæri eða áhöld. Sumir gerðu göngustafi og aðrir létu sköpunarandann koma sér í núvitund með því að láta efniviðinn ráða för. Þögn ríkir gjarnan á námskeiðunum nema þegar leiðbeinandi þarf að koma einhverju fræðilegu eða tæknilegu að en þögnin og sköpunin sem fram fer í tálguninni er e.t.v. það sem gefur þátttakendum mest af andlegu fóðri og sköpunarorku.Ferskt skógarefnið fóðrar sköpunina með góðri lykt og mýkt sinni.

Þátttakendur voru 12, úr Skagafirðinum, frá Skagaströnd og úr Langadal.

Leiðbeinandi var  Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri LÍS.

 

Þátttakendur vinna áhugasamir við tálgunina
og útfæra verkefnin sín hver með sínu móti.

Myndir og texti: ÓlO