Hreinn Óskarsson skógfræðingur leiðbeinir í tveimur stuttum myndböndum Skógræktarinnar um söfnun og …
Hreinn Óskarsson skógfræðingur leiðbeinir í tveimur stuttum myndböndum Skógræktarinnar um söfnun og sáningu á birkifræi. Skjámynd úr öðru myndbandanna.

Skógræktin hefur gefið út tvö stutt myndbönd með leiðbeiningum um hvernig fólk getur borið sig að við söfnun og sáningu á birkifræi. Almenningur getur lagt sitt af mörkum til að breiða út birkiskóglendi landsins á ný og til þess er hvatt í átaki sem Skógræktin og Landgræðslan standa fyrir á þessu hausti í samvinnu við almenning, félög og fyrirtæki.

Myndböndin tvö eru liður í því starfi Skógræktarinnar að gera fræðsluefni um skógrækt aðgengilegt öllum á einfaldan og skýran hátt. Á myndbandavef Skógræktarinnar sem er aðgengilegur hér á skogur.is er nú þegar að finna leiðbeiningar um hvernig tína má köngla af stafafuru og sá fræjum tegundarinnar beint í jörð á rýru landi. Þá er von á stuttum myndböndum um söfnun og sáningu grenifræja.

Söfnun á birkifræi

Birkifræ er vel þroskað þegar auðvelt er að mylja fræreklana í sundur. Skjámynd úr myndbandinu um fræsöfnunBirkifræi er auðvelt að safna á haustin og í venjulegu árferði má búast við að fræið sé að ná fullum þroska um og upp úr miðjum septembermánuði. Fræinu má sá beint í jörð og ef rétt er staðið að sáningunni getur bein sáning verið auðveld leið til að koma birki í skóglaust land. En hvernig þekkir maður birkifræ og hvort það er tilbúið svo það megi tína? Í myndbandi Skógræktarinnar um söfnun birkifræs fer Hreinn Óskarsson, skógfræðingur og sviðstjóri þjóðskógasviðs hjá Skógræktinni, yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga þegar farið er út að safna birkifræi.

Sáning á birkifræi

Hreinn  hefur mikla reynslu af birkirækt á rofnu landi, meðal annars úr stærsta birkiskóggræðsluverkefni á Íslandi, Hekluskógaverkefninu. Ráðleggingar hans eru gott vegarnesti þeim sem vilja leggja sitt af mörkum til að útbreiða birkiskóglendi á ný á Íslandi. Reynslan af beinni sáningu birkifræs er mjög misjöfn og því þarf að hafa ákveðin atriði í huga til að líklegt sé að fræið nái að spíra og upp vaxi birkiplöntur.

Ef rétt er staðið að sáningunni getur bein sáning verið auðveld leið til að koma birki í skóglaust land. Birki byrjar ungt að mynda fræ og sá sér út af sjálfsdáðum.  En birkifræ er smátt og orkulítið fræ og verður að geta spírað á yfirborðinu. Fræið á því ekki að hylja með jarðvegi. Nauðsynlegt er hins vegar að það komist í set þar sem er nægur raki en ekki of mikil samkeppni frá öðrum gróðri. Hálfgróið land sem friðað er fyrir beit er einna vænlegast til beinnar sáningar á birkifræi. Gæta þarf þess að sá hvorki á algjörlega gróðurlausa bletti eða bletti með mjög þéttum eða hávöxnum gróðri. Í myndbandinu um sáningu birkifræs fer Hreinn yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga þegar birkifræi er sáð beint í jörð.

Breiðum út birkiskógana!

Verndun og útbreiðsla birkiskóga er eitt meginhlutverka Skógræktarinnar samkvæmt lögum. Átak til söfnunar og sáningar á birkifræi hófst formlega 16. september í samstarfi Skógræktarinnar og Landgræðslunnar við Prentmet Odda, Terra, Bónus, Lionshreyfinguna, Kópavogsbæ, Skógræktarfélag Íslands og Landvernd. Söfnunaröskjur úr pappa eru fáanlegar í Bónusverslunum og þar má einnig skila fræi ef fólk hyggst ekki sá því sjálft. Terra leggur til sérstakar tunnur sem settar hafa verið upp í verslunum Bónus. Einnig má skila fræi á starfstöðvum Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

@birkiskógur #birkifræ #skograektin

Texti: Pétur Halldórsson