Jólamarkaður. Fólk hugar að kaupum á jólatrjám, en stafafura hefur lengi verið vinsælasta íslenska j…
Jólamarkaður. Fólk hugar að kaupum á jólatrjám, en stafafura hefur lengi verið vinsælasta íslenska jólatréð. Ljósmynd: Morgunblaðið/Íris Jóhannsdóttir
Morgunblaðið 28. október 2021, bls. 18:

Ræktun á ökrum þarf góðar aðstæður og umgjörð

Tæpir tveir mánuðir eru til jóla og hæpið að fólk sé almennt farið að hugsa um jólaté. Þetta á þó ekki við um þá sem standa í ræktun trjáa og vita að slíkt starf er langhlaup, sem krefst úthalds og umhyggju til að ná góðum árangri. Fram undan er námskeið um ræktun jólatrjáa við ólíkar aðstæður.

Námskeiðið er hluti af námskeiðaröðinni Grænni skógar á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands og verður á Reykjum í Ölfusi 5. og 6. nóvember. Leiðbeinendur verða Hallur Björgvinsson og Jón Þór Birgisson, skógræktarráðgjafar hjá  Skógræktinni. Leiðbeint verður m.a. um tegundir jólatrjáa, ræktun þeirra, sýnd dæmi frá Danmörku og farið í vettvangsferð. Jón Þór segir í samtali við Morgunblaðið að nokkrir bændur séu komnir af stað með ræktun jólatrjáa í sérstökum ökrum. Langmest sé þó um ræktunina í gömlum skógum eða að hentug jólatré séu tekin frá samhliða grisjun. Hann segir að ræktun á ökrum þurfi góðar aðstæður og umgjörð.

Jólatré eru alltaf vinsæl

Bændur þurfi m.a. að hafa í huga að jarðvegur sé hentugur og skjól gott, en það fáist oft með  ræktun skjólbelta. Á síðustu árum hafi nokkrir bændur reynt fyrir sér og segist Jón Þór vona að eftir tíu ár verði þessi hópur orðinn enn öflugri.

Normansþinur, innfluttur frá Danmörku, hefur verið vinsælasta jólatréð í stofum landsmanna í fjölda ára. Nokkrar íslenskar trjátegundir hafa verið notaðar sem jólatré og stafafuran notið mestra vinsælda, oft kölluð íslenska jólatréð. Á námskeiðinu verða meðal annars skoðaðar tilraunaniðurstöður í ræktun jólatrjáa hér á landi.

Jón Þór áætlar að minnst tíu ár taki að rækta stafafuru frá gróðursetningu upp í hentuga stofustærð. Nefna má að í gangi eru ýmsar tilraunir í ræktun og einnig kynbætur á trjám.

„Jólatré eru alltaf vinsæl og ég sé ekki fyrir mér að breyting verði á því,“ segir Jón Þór. „Í ræktuninni erum við alltaf að læra og á námskeiðinu tekst okkur vonandi að vekja áhuga einhverra skógareigenda. Með auknum skógum fjölgar möguleikunum fyrir ræktun jólatrjáa á akri.“

Hann segir að jólatré séu tekin í skógum alls staðar á landinu. Mest komi af þeim úr skógum á Suður- og Vesturlandi, en það skýrist m.a. af nálægð við stærsta markaðinn.

Morgunblaðsfrétt: Ágúst Ingi Jónsson
Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson

Skjámynd af frétt Morgunblaðsins