Skreyttur smjörhnífur að hætti Króata, gerður úr íslenskri selju
Skreyttur smjörhnífur að hætti Króata, gerður úr íslenskri selju

Síðasta vinnusmiðjan í tíu þjóða samstarfi stendur yfir á Reykjum

Ríflega fjörutíu manns frá sjö löndum Evrópu taka þátt í vinnusmiðju um skóga og skógarnytjar sem stendur yfir þessa dagana í húsum Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi. Smiðjan nýtur styrks frá Leonardo-áætlun Evrópusambandsins og þar er tálgað í anda verkefnanna sem haldin hafa verið hérlendis undir heitinu Lesið í skóginn.

Vinnusmiðjan er hluti af verkefni sem  heitir á ensku „Teach me wood“ og hófst árið 2013. Merking enska heitisins er nokkuð margræð því orðið „wood“ getur þýtt bæði viður og skógur og því vandi að þýða heitið  beint yfir á íslensku og ná sömu margræðni. Þó höfum við orðið tré sem stendur bæði fyrir lifandi tré og trjávið. Í verkefninu er meðal annars markmiðið að fólk læri um tré og trjávið en leitist líka við að finna út hvað trén geta sagt okkur sjálf og trjáviðurinn úr þeim.

Landbúnaðarháskóli Íslands tekur þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands en alls eru tíu þjóðir með í samstarfinu. Markmiðið er að kennarar frá löndunum heimsæki hverjir aðra og kynnist menningu, sögu og skógfræði í hverju landi, meðal annars hvernig skógarafurðir eru nýttar frá einu landi til annars.

Vinnusmiðjan sem nú stendur yfir á Reykjum er sú níunda í röðinni og þátttakendur nú eru ríflega fjörutíu, frá Englandi, Tyrklandi, Eistlandi, Þýskalandi, Króatíu, Slóvakíu og Frakklandi. Mikil áhersla er lögð á að þátttakendur kynnist vel þeim skóla sem þeir heimsækja hverju sinni en einnig umhverfi hans og mannlífi í byggðarlaginu. Heimsótt eru fyrirtæki sem tengjast viðarvinnslu á einhvern hátt, einnig söfn sem huga að byggingarlist, húsbúnaði eða öðrum munum úr viði og gestirnir kynna sér þjóðlega menningu í viðkomandi landi.

Á hverri vinnusmiðju eru unnin ýmis verkefni með skógarafurðir, hvort sem það er að smíða lítinn trékistil, tálga út fugla, þverslaufu eða pennastatíf, svo dæmi séu nefnd, eða jafnvel skera út öndvegissúlur með keðjusög eins og gert var í vinnusmiðjunni sem haldin var í Eistlandi.

Nú líður að lokum verkefnisins og vinnusmiðjan á Íslandi er sú síðasta. Íslendingar hafa tekið þátt í vinnusmiðjum í öðrum löndum, til dæmis í bæði Króatíu og Frakklandi.

Hópurinn sem dvelur á Reykjum þessa dagana nýtur kennslu Guðjóns Kristinssonar í torfhúsagerð og þá er aðallega hugað að því hlutverki sem rekaviður gegndi í fornri byggingarhefð Íslendinga. Hópurinn lærir að tálga og lesa í skóginn hjá Ólafi Oddssyni, fræðslufulltrúa Skógræktar ríkisins. Bjarki Sigurðsson, verkstjóri hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað, Benedikt Axelsson, garðyrkjunemandi við LbhÍ, og Ólafur G.E. Sæmundsen trérennismiður kenna líka á námskeiðinu og Björgvin Örn Eggertsson fer með gestina um Reykjaskóginn til þess að þeir fái að kynnast íslenskum nytjaskógi. Settur er saman tréhamar, tálgaðir smjörhnífar og fleira, nemendur læra öruggu hnífsbrögðin og að tala með tálguninni, sem kallað er. Vinnusmiðjunni á Reykjum lýkur á morgun, 1. maí, en samhliða henni er haldinn lokafundurinn í verkefninu Teach me wood.

Alþjóðlegt samstarf eins og þetta verkefni er mjög mikilvægt fyrir skóla eins og Landbúnaðarháskólann að sögn Guðrúnar Lárusdóttur, endurmenntunarstjóra LbhÍ. Tækifæri skapist fyrir kennara til að sækja aðra skóla, læra um mismunandi kennsluaðferðir, sjá hvað aðrir kennarar og nemendur eru að fást við og ekki síst að upplifa aðra menningu. Fyrir nemendur sé þetta einnig ómetanleg reynsla. Gjarnan hafi verið farið á staði sem eru utan hinna hefðbundnu sumarleyfisferða og reynsla þeirra Íslendinga sem farið hafi utan í vinnusmiðjur þessar sé sú að þetta sé upplifun sem fólk búi að til lífstíðar.

Meðfylgjandi myndir tók Ólafur Oddsson á Reykjum nú í vikunni.

Texti: Pétur Halldórsson