Auðvelt er nú orðið að hnita útlínur gróðursettra reita með hjálp snjallsíma og einfaldra smáforrita…
Auðvelt er nú orðið að hnita útlínur gróðursettra reita með hjálp snjallsíma og einfaldra smáforrita.

Skógræktin gefur út myndband og leiðbeiningar fyrir skógarbændur

Út er komið á vegum Skógræktarinnar mynd­band ásamt skriflegum leiðbeiningum þar sem útskýrt er á skilmerki­legan hátt hvernig hnita má útlínur gróður­setningar­reita með hjálp GPS-tækni. Hver sem er getur nú kortlagt framkvæmdir á skóg­ræktar­svæðum sínum jafnóðum með snjall­síma og einföldu smáforriti. Ítarlegri leið­beiningar eru einnig komnar á vefinn skogur.is

Tækninni fleygir stöðugt fram og nú er svo komið að auðvelt er fyrir skógarbændur og aðra skógræktendur að hnita upp jafnóðum allar framkvæmdir sem unnið er að á skóg­ræktar­svæð­um. Auk hefðbundinna GPS-tækja er nú auðvelt að nýta smáforrit sem fáanleg eru í snjallsíma. Stefna Skóg­ræktar­innar er að skógar­bændur sjái sjálfir um þessa kort­lagningu.

Einkum er hér átt við gróðursetningar. Í þeim leiðbeiningum sem fáanlegar eru á skogur.is í pdf-skrá er farið yfir þær tæknilegu leiðir sem færar eru til að skrá gróðursetningar jafnóðum. Farið er í gegnum hvernig skrá má staðsetningu svæðis sem gróðursett er í og hvernig þessum upplýsingum skuli skilað til skógræktarráðgjafa Skógræktarinnar. Lýst er tveimur gerðum af GPS-tækjum. Einnig er bent á smáforrit sem setja má upp í snjallsíma.

Ástæða er til að vekja athygli á myndbandarás Skógræktarinnar á Youtube. Hér fyrir neðan má hlaða niður pdf-skrá með leiðbeiningum um skráningu gróðursetninga með GPS-tækni, þar fyrir neðan er hlekkur á myndbandarásina og neðst er sjálft myndbandið um GPS-skráninguna.


MYNDBAND um skráningu gróðursetninga með GPS-tækni

Texti: Pétur Halldórsson