Ef ráðist er í skráð og samningsbundin kolefnisverkefni með nýskógrækt og allt ferlið vottað af lögg…
Ef ráðist er í skráð og samningsbundin kolefnisverkefni með nýskógrækt og allt ferlið vottað af löggiltri vottunarstofu verða til kolefniseiningar sem mældar eru í tonnum af koltvísýringi. Ef lögaðili telur fram eitt vottað koltvísýringsstonn sem bundist hefur í nýjum skógi á móti einu tonni af losuðum koltvísýringi hefur viðkomandi náð ábyrgri kolefnisjöfnun á þetta viðkomandi losunartonn. Nú er mögulegt að ráðast í slíka ábyrga kolefnisjöfnun á Íslandi sem er mikilvægt skref í loftslagsmálum Íslendinga. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Grein eftir Gunnlaug Guðjónsson og Pétur Halldórsson

Birtist í: Ársriti Skógræktarinnar 2020

 

Vottuð kolefnisbinding með Skógarkolefni  orðin möguleg

Í Ársriti Skógræktarinnar fyrir árið 2019 var sagt frá nýju verkefni, Skógarkolefni, sem Skógræktin hafði þá hrundið af stað. Með því væri ætlunin að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Þar með yrði í fyrsta sinn á Íslandi hægt að versla með vottaðar einingar kolefnis sem bundið er með nýskógrækt. Ein eining samsvarar einu tonni af koltvísýringi. Sá sem losar eitt tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið og vill kolefnisjafna það með ábyrgum og viðurkenndum hætti þarf að sjá til þess að eitt tonn af koltvísýringi verði bundið á ný, til dæmis í skógi. Nú eru fyrstu verkefnin að verða að veruleika undir merkjum Skógarkolefnis og fjallað er um það í Ársriti Skógræktarinnar 2020.

Regluverk um vottuð kolefnisverkefni með skógrækt var kynnt í árslok 2019 undir sama heiti, Skógarkolefni. Áfram var unnið að framgangi verkefnisins á árinu 2020 og áherslan lögð á að komið yrði á fót löggiltri kolefnisskrá svo skrá mætti kolefniseiningar með öruggum hætti, versla með þær og að lokum telja þær fram á móti losun til kolefnisjöfnunar og undir lok árs varð Loftslagsskrá Íslands að veruleika.

Hér eru sýnd á einfaldan hátt meginatriði ábyrgrar kolefnisjöfnunar. Sá sem losar dregur eftir mætti úr losun sinni en útvegar sér vottaðar einingar á móti því sem eftir stendur. Mynd: Skógræktin

Hugmyndin

Meginmarkmiðið með Skógarkolefni er að hægt sé bjóða ábyrgum fyrirtækjum upp á vottaðar kolefniseiningar. Ef fyrirtæki og aðrir lögaðilar vilja nota hugtök eins og kolefnisjöfnun og kolefnishlutleysi nægir ekki að gera samninga um skógrækt eða önnur verkefni sem binda kolefni eða koma í veg fyrir losun, nema ávinningurinn af slíkum verkefnum sé staðfestur af sérfræðingum samkvæmt viðurkenndum reglum og allt ferlið að lokum vottað af óháðum þriðja aðila, viðurkenndri vottunarstofu. Mikilvægt er í slíkum verkefnum að koma í veg fyrir allt sem kallast gæti grænþvottur.

Í starfinu að Skógarkolefni hefur verið lögð áhersla á að bjóða upp á einfalt og skýrt ferli. Fyrirmynd kerfisins er breska kerfið Woodland Carbon Code sem Skógræktin hefur átt gott samstarf við. Hefur kerfið verið staðfært fyrir Ísland. Ekki er þó margt að staðfæra því að í eðli sínu eru loftslagsmálin eins alls staðar í heiminum. Ástæðulaust er því að tala um „sérstöðu Íslands“ nema ef vera skyldi ástand landsins og það mikla landflæmi sem hér hentar til bæði nytjaskógræktar og útbreiðslu birkiskóglendis.

Aðferðafræðin er með öðrum orðum tilbúin og hentar sérstaklega vel fyrir nýskógrækt sem gerir nánast skóglaust land eins og Ísland að kjörnum vettvangi fyrir kolefnisverkefni. Þegar skógur er ræktaður á skóglausu landi á Íslandi hefst mikil binding eftir fáein ár á landi sem í besta falli batt lítið eða ekkert kolefni áður og var jafnvel í því ástandi að losa kolefni vegna rotnunar á gömlum jarðvegi.

Skógarkolefni styður við aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum með því að hvetja einkageirann til ábyrgra verkefna sem leiða til aukinnar kolefnisbindingar og nettósamdráttar í losun vegna starfsemi viðkomandi fyrirtækis.

Kolefnisbankabók

Ýmislegt er nýstárlegt í þessum efnum fyrir flestu fólki. Flest fólk áttar sig á því hvað sé losun og hvað sé binding. Það hefur líka ákveðna hugmynd um hvað sé kolefnisjöfnun. Málin flækjast þegar farið er að ræða um kolefniseiningar, kolefnisskrá og vottun. Í raun er þetta þó sáraeinfalt og mætti líkja við bankareikning sem við höfum öll.

Við getum verið í mínus á bankareikningnum en líka í plús. Sá sem losar kolefni út í andrúmsloftið en bindur ekki kolefni á móti er í mínus. Ástand lofthjúps jarðar nú helgast af því að við höfum í 250 ár verið á yfirdrætti í þessum bankareikningi sem kolefni í andrúmsloftinu er. Við leggjum ekkert inn, tökum bara út. Nú er komið að skuldadögum. Gleðibankinn er að verða tómur.

Eftir því sem tímar líða verður æ eftirsóttara að eiga kolefnisinneign. Ekki er verra ef þessi inneign er eins og verðbréf og getur hækkað í verði með aukinni eftirspurn. Allt bendir til þess að kolefniseiningar verði eftirsóttari eftir því sem loftslagsmálin sverfa meira að mannkyninu og aðgerðir verða brýnni. Æ fleiri munu þurfa að eignast kolefniseiningar til að telja fram á móti losun sinni.

Ef ég rækta skóg fyrir eigin peninga og skrái verkefnið mitt í Skógarkolefni get ég eignast á fáeinum árum seljanlegar kolefniseiningar sem geta gefið mér verulegan arð af skóginum, löngu áður en skógurinn gefur timbur eða aðrar beinharðar afurðir. Þar með á ég kolefnisinneign. Ef ég rek starfsemi sem losar kolefni út í andrúmsloftið get ég notað þessar einingar til að næla mér í viðurkennda og vottaða kolefnisjöfnun. Þar með sýnir fyrirtæki mitt ábyrgð í loftslagsmálum. Slík ábyrgð verður æ verðmætari fyrir ímynd fyrirtækja eftir því sem fram líða stundir og jafnvel skylda.

En ef ég er ekki með neina slíka starfsemi og þarf ekki að kolefnisjafna sjálfur eru kolefniseiningarnar mínar dýrmæt kolefnisinneign. Ég get veðjað á að verðið á einingunum haldi áfram að hækka, líkt og ef ég ætti verðbréf, eða selt einingarnar strax og notað peningana í annað.

Fyrir fjárfesta hefur skógrækt ekki þótt ýkja freistandi kostur fram undir þetta enda þarf að bíða í áratugi eftir því að arðurinn fari að skila sér. Nú, þegar færi gefst á nýrri skógararfurð, vottuðum kolefniseiningum, má vænta þess að féð fari að skila sér aftur eftir aðeins fimm ár. Þessi afurð kemur til viðbótar við aðrar afurðir af skóginum því að í kolefnisverkefnum er hægt að gera ráð fyrir sjálfbærum nytjum af skóginum eins og áður. Áætluð kolefnisbinding skógarins er metin út frá því hvernig ætlunin er að hirða um skóginn, allt frá engri umhirðu upp í reglulega grisjun og skógarhögg. Eina skilyrðið er að farið sé eftir þeirri áætlun sem lagt var upp með í upphafi og sú binding sem áætluð var verði örugglega í skóginum.

Loftslagsráð

Hinn 26. október 2020 sendi Loftslagsráð frá sér álit um ábyrga kolefnisjöfnun. Þar er bent á að nauðsynlegt sé að tryggja að íslenskar kolefniseiningar standist alþjóðlegar gæðakröfur og séu byggðar á viðurkenndri aðferðafræði við útgáfu kolefniseininga á grundvelli mælinga. Úttekt sem gerð var fyrir Loftslagsráð á árinu leiddi í ljós að umtalsverðra úrbóta væri þörf. Kallaði ráðið helstu aðila sem málið varða saman til að vinna að nauðsynlegum úrbótum.

Með regluverki Skógarkolefnis og tilkomu Loftslagsskrár Íslands eru allar þær kröfur sem Loftslagsráð setur fram í áliti sínu uppfylltar. Skógarkolefni er fyrsta kerfið á Íslandi sem gefur færi á ábyrgri kolefnisjöfnun.

Vefur Loftslagsráðs er á slóðinni loftslagsrad.is.

Vottun

Forsendan fyrir því að ábyrg kolefnisjöfnun sé möguleg er alþjóðleg, óháð vottun. Vottuninni má líkja við það að ég fái til mín iðnaðarmann sem vinni hjá mér tiltekið verk og síðan komi óháður sérfræðingur í viðkomandi iðngrein og fari yfir allt ferlið til að staðfesta að allt hafi verið rétt gert. Slík staðfesting á viðkomandi ferli, reglum og aðferðum tryggir traust. Óháð vottun tryggir gæði. Með vottuninni er komið í veg fyrir að viðkomandi verkefni sé aðeins fúsk eða yfirklór. Vottun er besta leiðin til að koma í veg fyrir grænþvott.

Ef gæðin eru tryggð með þessum hætti er líklegt að eftirspurnin verði meiri. Vottaðar kolefniseiningar eru því gæðavara. Fólk vill gæðavöru. Krafa stjórnvalda og alþjóðastofnana um gæði verður æ meiri. Með því að skrá einingar í Loftslagsskrá Íslands verður til markaður með gæðavöru sem nota má til að vinna að kolefnishlutleysi.

Í öllu þessu starfi er þó lögð áhersla á að meginverkefni okkar sé að draga úr losun. Þetta er raunar ein af þeim kröfum sem gerðar eru í Skógarkolefni. Fyrst á viðkomandi aðili að setja sér markmið um að draga úr losun. Kolefniseiningar á eingöngu að nota á móti losun sem viðkomandi getur ekki hætt strax. Áfram á svo að vinna að því að draga úr losun og auðvitað er hið endanlega markmið að hætta henni alveg. Þangað til það verður hægt eru vottaðar kolefniseiningar mikilvægt tæki í loftslagsbaráttunni.

Valkvæður markaður

Kolefnismörkuðum er í grófum dráttum skipt í tvennt eins og staðan er í Evrópu nú. Annars vegar er hinn reglubundni kolefnismarkaður, á alþjóðamali compliance market. Hann felst í því að yfirvöld gefa út tiltekið magn losunarheimilda, carbon allowances, og fyrirtæki þurfa að eiga heimildir fyrir allri sinni losun. Þetta þýðir að þak er sett á mögulega losun viðkomandi fyrirtækis. Reglubundni markaðurinn er eftirlitsmarkaður. Ein losunarheimild samsvarar einu tonni af CO2 og hana má nota á móti einu tonni af CO2 sem losað er út í andrúmsloftið. Þetta er hið svokallaða ETS-kerfi, European Trade System.

Hins vegar er hinn svokallaði valkvæði markaður, á alþjóðamáli voluntary market. Þar er gert ráð fyrir því að fyrirtæki kaupi losunarheimildir til að vega upp á móti eigin losun. Skógarkolefni tilheyrir þessum markaði. Ef fyrirtæki losar eitt tonn af CO2 en kaupir eitt tonn af CO2 sem bundið hefur verið annars staðar telst það hafa kolefnisjafnað viðkomandi tonn. Á valkvæða markaðnum eru aðallega einkaaðilar og í heitinu felst að þessar aðgerðir eru valkvæðar, ekki skylda, hvað svo sem síðar kann að verða. Aukinn þrýstingur á aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eykur líkurnar á að einkaaðilar fari þessa leið, m.a. til að bæta ímynd sína svo að viðskiptavinir snúi sér ekki til annarra sem standa sig betur.

Ein af þeim sviðsmyndum sem settar hafa verið upp fyrir Skógarkolefni. Hér er gert ráð fyrir að eigandi verkefnis, til dæmis landeigandi, fjármagni skógræktarverkefnið og þar með verði til vottaðar einingar sem eigandinn getur selt - eða notað á móti eigin losun. Mynd: Skógræktin

Kröfusettið Skógarkolefni

  1. Grundvallarkrafa í Skógarkolefni og sambærilegum verkefnum er svokölluð viðbót. Það þýðir að viðkomandi verkefni verður að leiða til þess að ný binding verði í skógi sem ekki hefði orðið annars. Bindingin er því viðbót (e. additionality) við það sem hefði hvort eð er gerst.
  2. Önnur krafa er svokallaður varanleiki (e. permanence). Bindingin þarf að vara í tiltekinn tíma en ekki endilega út í það óendanlega. Þessi tími er skilgreindur í samningi og skógræktaráætlun viðkomandi verkefnis.
  3. Þriðja hugtakið sem mikilvægt er að átta sig á er svokallaður leki (e. leakage) Verkefnið má ekki leiða til þess að losun verði annars staðar. Þetta þarf að ganga rækilega úr skugga um við gerð samnings og áætlunar.
  4. Í fjórða lagi þarf að vera skýr aðferðafræði um mælanleika (e. measurability) verkefnisins og vöktun þess. Fylgjast verður með því að það sem áætlað er í byrjun verði að raunveruleika þegar þar að kemur.
  5. Fimmta mikilvæga atriðið er gagnsæi (e. transparency) Allar upplýsingar um mælingar og aðferðafræði þurfa að liggja fyrir og vera aðgengilegar á hverjum tíma.
  6. Í sjötta lagi eru úttektirnar (e. audit). Árangur skal tekinn út af óháðum vottunaraðila. Sérfræðingar gera mælingar (sjá fjórða atriðið) og þær mælingar eru meðal þess sem vottunaraðilinn gengur úr skugga um að hafi verið gerðar samkvæmt reglum og áætlunum.
  7. Loks er í sjöunda lagi nauðsynlegt að verkefnið sé skráð (e. registered). Einingar skulu skráðar miðlægt í rafræna skrá. Loftslagsskrá Íslands er slík skrá og má líkja við verðbréfaskrá. Hver kolefniseining fær sína kennitölu og henni fylgja upplýsingar um hvort hún bíður eftir að verða fullgild, er fullgild eða hefur verið notuð á móti losun.

Skógarkolefnisreiknirinn

Skógarkolefnisreiknir Skógræktarinnar gerir kleift að áætla á fljótlegan hátt bindingu á hvaða svæði sem er á Íslandi, þar sem skógrækt kemur á annað borð til greina. Mynd: SkógræktinÍ árslok 2020 kynnti Skógræktin einnig mikilvægt hjálpartæki fyrir alla skógræktendur, svokallaðan Skógarkolefnisreikni. Þetta er reiknivél sem byggð er á ítarlegum gögnum sem Skógræktin hefur safnað í áratugi um vöxt og bindingu íslenskra skóga. Í gagnagrunninum eru upplýsingar um veðurfars- og ræktunarskilyrði á öllu láglendi Íslands. Með reiknivélinni má áætla gróflega vöxt og bindingu helstu trjátegunda á hverju því svæði á láglendi landsins sem kemur til greina til skógræktar.

Skógarkolefnisreiknirinn er ekki síst mikilvægt tól til að gera áætlanir um kolefnisbindingu þess skógar sem ráðgert er að rækta. Gögnin sem útreikningarnir eru byggðir á verða að teljast mjög traust enda sendir Skógræktin á hverju ári nýjar tölur um bindingu skóglendis á Íslandi til Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC. Sú vinna fer fram á vegum loftslagsdeildar rannsóknasviðs Skógræktarinnar og fær ævinlega góða einkunn hjá fulltrúum IPPC.

Ef ákveðið er að ráðast í skógræktarverkefni eftir regluverki Skógarkolefnis eru gerðar ítarlegri áætlanir um vöxt og bindingu en fást með Skógarkolefnisreikni. Viðkomandi svæði er tekið út, gerð skógræktaráætlun, trjátegundir valdar og út frá því má áætla með meiri nákvæmni hvað skógurinn muni binda mikið kolefni á samningstímanum.

Skógarkolefnisreikni er að finna á vefnum á slóðinni reiknivel.skogur.is.

Staðlaráð

Unnið er að því að formgera reglur á kolefnismarkaði í samvinnu við Staðlaráð Íslands og Loftslagsráð með þátttöku fjölda fyrirtækja og stofnana. Þetta starf hófst á árinu 2020 með þátttöku Skógræktarinnar og heldur áfram á árinu 2021. Þess er vænst að sú aðferðafræði sem Skógarkolefni byggist á muni verða tekin upp í fleiri verkefnum sem tengjast ábyrgri kolefnisjöfnun.

Fyrirtæki á markaði

Ísland hefur stimplað sig inn víða um heim sem áhugaverður vettvangur fyrir kolefnisbindingarverkefni. Hér er mikil þekking til staðar, vel menntað fólk og stöðugleiki í stjórnkerfi og þjóðmálum. Þá er hér mikið af skóglausu landi sem hentar til skógræktar, bæði nytja- og náttúruskóga.

Á árinu 2020 varð vart við mikinn áhuga erlendra og innlendra fyrirtækja á kolefnisverkefnum með skógrækt á Íslandi. Varla leið sú vika að ekki væri haft samband við Skógræktina til að kanna slíka möguleika. Vottuð kolefnisbinding er þó ekki megináhersla allra þessara aðila. Mikill áhugi virðist vera hjá fólki um allan heim að stöðva eyðingu skóga heimsins og stuðla að því að þeir stækki á ný. Margir vilja leggja fé til slíkra verkefna. Árangur af því er til dæmis skógræktarverkefni One Tree Planted í Breiðdal sem sagt er frá annars staðar í Ársritinu.

En svo eru það fyrirtæki á markaði sem vilja kolefnisjafna sig. Með Skógarkolefni eru tækifærin að aukast. Stór innlend fyrirtæki hafa verið í viðræðum við Skógræktina um vottuð kolefnisverkefni og sömuleiðis eru stórir erlendir aðilar í slíkum viðræðum við stofnunina.

Fyrstu verkefnin í Loftslagsskrá Íslands

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að skrifa verkefnalýsingar í samræmi við kröfur Skógarkolefnis fyrir tvö kolefnisverkefni sem skráð verða í Loftslagsskrá Íslands. Fleiri eru í farvatninu. Um þessar mundir er unnið að því að skrá fyrsta verkefnið í Loftslagsskrá Íslands.

Ársrit Skógræktarinnar 2020