Ungar og efnilegar asparplöntur sem stungið var órættum í lúpínubreiðu. Hefðbundnir 20 cm langir sti…
Ungar og efnilegar asparplöntur sem stungið var órættum í lúpínubreiðu. Hefðbundnir 20 cm langir stiklingar eru hentugir til beinnar stungu á slíkum svæðum ef búið er í haginn fyrir þær með jarðvinnslu. Ljósmynd: Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir

Tilraunir með stungu órættra aspargræðlinga í lúpínubreiður gefa til kynna að nauðsynlegt sé að jarðtæta svæði að vori ef nota á hefðbundna 20 sentímetra langa græðlinga í slíkum verkefnum. Einnig kemur í ljós að vænlegast geti verið að nota lengri græðlinga ef minni inngrip eru gerð í formi jarðvinnslu. Þetta er meðal niðurstaðna í tilraunum Jóhönnu Bergrúnar Ólafsdóttur, sérfræðings á Mógilsá.

Jóhanna vann að þessum tilraunum  í meistaraverkefni sínu við Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið naut styrks úr Minningarsjóði Hjálmars og Else Bárðarson. Nýverið var skilað lokaskýrslu til sjóðsins þar sem Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni, og Úlfur Óskarsson, lektor við LbhÍ,  eru meðhöfundar.

Alaskaösp er hraðvaxta tegund sem hefur sannað gildi sitt í skógrækt hérlendis. Einn af kostum asparinnar er að auðvelt er að fjölga henni með græðlingum, klipptum úr greinum uppkominna trjáa. Hægt er að spara kostnað við plöntuframleiðslu með beinni stungu órættra græðlinga af alaskaösp og er það umfjöllunarefni í þessu verkefni.

Alaskaösp er ljóselsk og því þarf að tryggja samkeppnisstöðu hennar gagnvart staðargróðri á fyrstu vaxtarárum. Lúpínusvæði eru þeim kostum gædd að lúpínan skaffar mikið magn af lífrænu efni á hverju ári og með tímanum myndar hún góðan forða næringarefna sem nýtast öðrum gróðri sem kemur inn á svæðin. Gerðar voru tilraunir með mismunandi jarðvinnsluaðferðir í lúpínubreiðum og könnuð lifun og vöxtur órættra græðlinga af alaskaösp.

Aðferðir

Jarðvinnsluaðferðirnar sem voru prófaðar voru jarðtæting, TTS-herfi og skurður með gróðursetningarvél. Með jarðtætingu í lúpínubreiðu er jarðvegur tættur upp og mikið magn lífræns efnis liggur eftir. TTS-herfi sker u.þ.b. 40 cm breiðar rásir í jarðveginn og veltir jarðvegi upp til hliðar við rásina. Gróðursetningarvélin sker mjóa rás í yfirborð jarðar, en raskar ekki gróðri umhverfis rásina. Venjulega setur gróðursetningarvélin niður plöntur um leið og rásin er mynduð, en svovar þó ekki gert í þessari tilraun. Í tilrauninni var notast við 20 cm langa órætta græðlinga og var öllum græðlingum stungið handvirkt í svæðin. Auk þessara jarðvinnsluaðferða var órættum græðlingum einnig stungið niður í óhreyfða lúpínu.

Lúpínusvæðin sem voru til skoðunar voru bæði á Suðurlandi, annars vegar Skarfanes í Rangárþingi ytra og hins vegar Ytra-Seljaland í Rangárþingi eystra. Jarðvinnslutilraun var á báðum stöðum og í hana var stungið niður 20 cm löngum græðlingum. Á Ytra-Seljalandi var einnig tilraun með mislanga græðlinga sem stungið var í lúpínubreiðu sem hafði verið jarðunnin með TTS-herfi. Græðlingarnir í þeirri tilraun voru 20, 40, 80 og 100 cm langir. 100 cm græðlingarnir voru bolefni (stofnar felldra trjáa). Voru þeir lagðir lárétt og jarðvegi rutt að þeim. Öðrum lengdum var stungið lóðrétt niður á hefðbundinn hátt.

Tilraunirnar voru settar niður sumarið 2016 og voru heimsóttar og mældar árlega að hausti, síðast haustið 2020.

Niðurstöður

Lifun í jarðvinnslutilraun í Skarfanesi. Mynd: Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir

Að fimm árum liðnum er lifun í jarðvinnslutilraun í Skarfanesi 24% og á Ytra-Seljalandi var lifun 21%. Þegar lifun er skoðuð út frá jarðvinnsluaðferðum er mikill munur á milli aðferða. Á báðum stöðum er lifun best þar sem jarðtæting var framkvæmd. Í Skarfanesi eru allir græðlingar dauðir þar sem engin jarðvinnsla var gerð (viðmið) og sama staðan þar sem gróðursetningarvél gerði rás. 20% græðlinga er lifandi í TTS-rásinni og þar sem var jarðtætt er lifun 79%. Á Ytra-Seljalandi eru 4% græðlinga lifandi þar sem engin jarðvinnsla var gerð (viðmið), 13% lifandi í TTS-rás og 48% lifandi í jarðtætingu. Á Ytra-Seljalandi voru áberandi mikil afföll græðlinga í jarðtætingu frá 2019-2020. Lifun var 75% haustið 2019 en fellur niður í 48% árið 2020. Velta má fyrir sér hvað veldur. Mögulega má rekja þessi afföll að einhverju leyti til mikillar þurrkatíðar á Suðurlandi sumarið 2019.

Lifun mislangra græðlinga á Ytra-Seljalandi. Mynd: Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir

Þegar skoðuð er lifun mislangra græðlinga á lúpínusvæði (Ytra-Seljaland) er lifun minnst hjá 20 cm græðlingum (20%), hjá 40 cm græðlingum er lifun 39%, hjá 80 cm löngum græðlingum er lifun 72% og 60% lifun hjá 100 cm bolefninu.

Út frá þessum niðurstöðum má draga þá ályktun að ef nota á hefðbundna 20 cm græðlinga á lúpínusvæði er jarðtæting nauðsynleg. Með jarðtætingu ná græðlingar betri fótfestu og þurfa ekki að keppast um ljós við samkeppnisgróðurinn fyrstu árin. Ef ekki er unnt að jarðtæta lúpínusvæði er nauðsynlegt að bæta samkeppnisstöðu græðlinganna með því að hafa þá lengri, 40-80 cm. Hafa ber í huga að með notkun lengri græðlinga verður framkvæmdin kostnaðarsamari. Vinna við stungu þeirra er meiri, auk þess sem framboð á góðu græðlingaefni minnkar eftir því sem græðlingar verða lengri.

Texti: Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir 
Ritstjórn: Pétur Halldórsson

Asparskógrækt með beinni stungu í lúpínubreiðu. Ljósmynd: Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir