Verðlaus hektari lands gæti skilað 2 milljóna arði eftir 50 ár

Ógróið eða illa gróið land á láglendi nær yfir um tólf prósent landsins, um 12.400 ferkílómetra. Á þessu landi getum við ræktað verðmætan skóg og fengið milljónir króna af hverjum hektara. Í tilefni alþjóðlegs dags skóga, 21. mars. hefur Skógrækt ríkisins sett saman myndband um nytjaskógrækt á auðnum.

Víða um heim er efnt til gróðursetningar, útivistar og annarra viðburða í skógum á alþjóðlega skógardeginum en slíkt hentar síður á Íslandi vegna þess að hér er enn vetur. Útivist er þó að sjálfsögðu alltaf möguleg í skógi og skógarnir gefa ekki síst dýrmætt skjól gegn vetrarveðrum.

Skógrækt hefur gríðarlega möguleika á Íslandi. Hér er nær ótakmarkað land til skógræktar og lengi hægt að rækta skóg án þess að slíkt komi niður á annars konar landnotkun. Auk þess felst geysileg verðmætasköpun í skógrækt. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að rækta asparskóg á eyðisöndum og að fimmtíu árum liðnum verða tekjurnar af hverjum hektara um tvær milljónir króna að núvirði. Rækti landeigandi ösp á 100 hekturum verða verðmætin sem afkomendur hans skera upp úr skóginum eftir hálfa öld um 200 milljónir króna.

Með skógrækt á melum og söndum víða um landið hefur verið sýnt fram á að nytjaskógrækt, öðru nafni timburskógrækt, er möguleg á gjörsnauðu landi. Með slíku starfi endurheimtum við landgæði, drögum úr jarðvegstapi, búum til skjól, öflug og sjálfbær vistkerfi og ekki síst gríðarleg verðmæti fyrir komandi kynslóðir. Ef ekkert er ræktað verða ekki til nein verðmæti. Ef ekki eru gróðursett tré núna verða engin tré til að fella eftir 50-80 ár.

Smellið hér til að horfa á myndbandið með ljósmyndum og fróðleik um skógrækt á beru landi.


Asparskógur við Múlakot í Fljótshlíð.
Ljósmynd: Hrafn Óskarsson


  • Um alþjóðlegan dag skóga

Fyrsti alþjóðlegi skógardagurinn var haldinn á vegum Sameinuðu þjóðanna 21. mars 2013 og þá sagði aðalritarinn, Ban Ki-moon, meðal annars þetta:

„Alþjóðlegur dagur skóga og trjáa er haldinn 21. mars á hvejru ári til að vekja athygli á sjálfbærri nýtingu skóga, verndun og sjálfbærri þróun allra skógargerða mannkyninu til heilla og komandi kynslóðum.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna gerði 21. desember 2012 sáttmála um að þessi dagur skyldi haldinn. Í sáttmálanum eru öll aðildarríkin hvött til þess að standa fyrir aðgerðum og viðburðum þennan dag, í hvers kyns skóglendi, og vekja athygli á trjám sem standa utan skóga. Meðal annars er hvatt til þess að staðið verði fyrir gróðursetningarherferðum. Og aðalritarinn sagði jafnframt þetta á í tilefni fyrsta alþjóðlega skógardagsins:

„Á þessum fyrsta alþjóðlega degi skóga og trjáa vil ég hvetja ríkisstjórnir, atvinnurekendur og fólk á öllum stigum samfélagsins til að einsetja sér að draga úr skógareyðingu, vinna gegn hnignun skóga, stuðla að sjálfbærum lífsskilyrðum alls fólks sem byggir afkomu sína á skógarsvæðum og draga úr fátækt þess.“

Skógar þekja um einn þriðja alls lands á jörðinni. Þeir gegna lífsnauðsynlegu hlutverki um allan heim. Um 1,6 milljarðar manna treysta á skóglendi sér til lífsbjargar, þar á meðal meira en tvö þúsund frumbyggjaþjóðir og þjóðflokkar.

Skógar eru líffræðilega fjölbreyttustu vistkerfi sem til eru á landi. Í skógum þrífst meira en helmingur allra tegunda landdýra, plantna og skordýra. Skógar veita líka skjól, atvinnu og öryggi fyrir það fólk sem lifir á því sem skógarnir gefa.

Sömuleiðis leika skógarnir aðahlutverk í baráttu okkar við loftslagsbreytingar. Þeir stuðla að jafnvægi súrefnis, koltvísýrings og raka í andrúmsloftinu. Þeir hemja líka framrás vatns í vatnasviðum og stýra rennsli ferskvatns í læki, ár og stórfljót.

En þrátt fyrir að lýðum sé ljóst þetta ómetanlega hlutverk skóganna fyrir vistkerfið, efnahagslífið, samfélög fólks og heilsu höldum við áfram að eyðileggja þessa skóga sem eru nauðsynlegir til að við getum lifað áfram á jörðinni. Skógareyðing heldur áfram um allan heim á ógnarhraða. Um þrettán milljónir hektara af skógi eru eyðilagðir á hverju ári. Tólf til tuttugu prósent þess gróðurhúsalofts sem stuðlar að hlýnun jarðar má rekja til skógareyðingar. Þegar skógurinn er felldur losnar kolefnið sem bundið er í honum út í andrúmsloftið, bæði úr gróðrinum og jarðvegi skógarins.


Alaskaösp í góðum vexti á landi sem áður var svartur sandurinn
Mynd: Halldór Sverrisson