Smíðuð verða húsgögn úr viðnum

Í dag var fellt 110 ára gamalt lerkitré í garðinum við Aðalstræti 52 á Akureyri en einnig um hálfrar aldar sitkagreni. Viðurinn úr báðum trjánum verður nýttur til smíða.

Í húsinu við Aðalstræti 52, sem reist var á seinni hluta 19. aldar, búa Hallgrímur Indriðason, skipulagsfulltrúi Skógræktar ríkisins, og Kristín Aðalsteinsdóttir prófessor. Kallað var saman einvalalið skógfræðinga til að höggva trén og til að fylgjast með því sem fram fór enda ekki á hverjum degi sem yfir aldargömul tré eru felld hérlendis.  

Annað af trjánum var um hálfrar aldar gamalt sitkagrenitré suðvestan við húsið og var farið að skyggja mjög á sólu í garðinum. Hitt var eitt þriggja gamalla lerkitrjáa austan hússins. Áður hafði annað lerkitré verið fellt og úr því smíðuð húsgögn sem prýða heimili og sumarbústað þeirra hjóna.

Lerkitrén við Aðalstræti 52 mega þykja nokkuð merkileg í skógræktarsögu Akureyrar. Þau voru gróðursett árið 1904 eftir því sem næst verður komist. Tréð sem nú var fellt var farið að hallast nokkuð og var hætta á að það félli og ylli skemmdum eða slysum. Því var fátt annað til ráða en fella það þótt sárt væri. Eftir standa tvö myndarleg lerkitré götumegin við hús Hallgríms og Kristínar svo götumyndin breytist ekki verulega en þau hjónin ætla að sjálfsögðu að láta saga bæði lerkitréð og grenitréð niður í borðvið sem eitthvað fallegt verður smíðað úr í fyllingu tímans, líklega húsgögn og fleira.

Fleiri myndir má sjá hér.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson